Menning í Mosfellsbæ
Um miðjan október var haldinn opinn íbúafundur í Hlégarði um menningarstefnu Mosfellsbæjar. Góð mæting var á fundinn og setið á hverju borði.
Þátttakendum var skipt upp í nokkra vinnuhópa þar sem mótaðar voru hugmyndir íbúa Mosfellsbæjar. Verið er að vinna úr niðurstöðum en ljóst er að Hlégarður á sérstakan sess í hjörtum bæjarbúa.
Margir fundargesta hvöttu okkur til að halda sambærilegan fund með unga fólkinu í Mosfellsbæ til að tryggja að raddir þeirra og hugmyndir fái vægi í þessari vinnu. Við ætlum því að endurtaka leikinn og fá unga fólkið til að koma með tillögur við mótun menningarstefnu Mosfellsbæjar og verður það verkefni kynnt fljótlega.
Ég vil fyrir hönd nefndarinnar þakka öllum sem mættu á fundinn og starfsmönnum bæjarins góða skipulagningu.
Davíð Ólafsson
formaður Menningar- og nýsköpunarnefndar Mosfellsbæjar.