Gefum öllum börnum jöfn tækifæri

Valdimar Birgisson

Valdimar Birgisson

Viðreisn í Mosfellsbæ lagði fram tillögu í bæjarráði um að stofnaður verði sjóður til styrktar börnum efnaminni foreldra til íþrótta- og tómstundaiðkunar í Mosfellsbæ. Sjóður þessi hefði til ráðstöfunar um 1,5 milljónir króna árlega.
Íþróttaiðkun barna er jákvæð á allan hátt fyrir þau og á unglingsárum hefur íþróttaiðkun verulega jákvæð áhrif á líkamlegt ástand, andlegan og félagslegan þroska. Hún eykur ábyrga hegðun, námsárangur, trú á eigin getu og styrkir traust á samfélagið. Það er því afar mikilvægt að vel sé staðið að íþrótta- og tómstundaiðkun í bænum og að Mosfellsbær styrki áfram þau íþróttafélög sem starfa í bænum.
Það er hins vegar staðreynd að fjárhagsstaða foreldra hefur áhrif á þátttöku íslenskra unglinga í íþróttum. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Ársæls Más Arnarssonar, prófessors við Háskóla Íslands frá árinu 2017 er brottfall úr íþróttum meira hjá þeim sem telja fjárhagsstöðu foreldra slæma en hinna sem telja hana góða. Alþjóðlegur samanburður er heldur ekki Íslandi í hag að þessu leyti og eru vísbendingar um að hér sé kostnaður við íþróttaiðkun barna meiri og fari hækkandi.
Það er því brýnt að brugðist verði við og við stöndum betur að verki. Sama í hvaða flokki við stöndum þá hljótum við flest að vera sammála um að gefa börnum jöfn tækifæri óháð efnahag heimila. Þannig er það ekki í dag, kostnaður við íþróttaiðkun barna er það hár að börn hafa ekki jöfn tækifæri.
Þessum viljum við breyta með þessari tillögu. Kostnaðurinn er ekki mikill en ávinningurinn getur verið það.

Valdimar Birgisson