Mikilvægi umhverfismála

Guðjón Jensson

Guðjón Jensson

Ein hliðin á grundvallarréttindum okkar í nútímasamfélagi er að lifa í góðu og hollu umhverfi.
Þessu er víða ábótavant – einnig í Mosfellsbæ. Það ætti að vera markmið stjórnvalda – alltaf – að kappkosta að bæta samfélagið og þar með umhverfið.
Mjög víða blasa við verkefnin í Mosfellsbæ:
Loftgæðum er víða ábótavant og þyrfti að bæta. Sérstaklega þarf að fylgjast betur með þar sem mengun er töluverð t.d. við Vesturlandsveg. Setja þarf upp mælitæki þar sem fylgjast má betur með þessum málum. Koltvísýringur, brennisteinsgufur og aðrar varhugaverðugar lofttegundir eru eðlislega þyngri en venjulegt loft og mætti því setja upp þessi mælitæki nálægt gamla Brúarlandi. Þar er sérstök ástæða til að fylgjast með loftgæðum enda skólastarfsemi í Brúarlandi.
Suma kyrrláta daga þá logn er má búast við umtalsverðri loftmengun. Á gamlárskvöld hefur flugelda- og blysnotkun farið fram úr öllu hófi á höfuðborgarsvæðinu og hafa niðurstöður mengunar farið langt yfir öll heilsuverndarmörk.

Fyrsta skrefið til betra umhverfis er að fylgjast betur með með aðstoð mælitækni. Annað að setja þrengri reglur um notkun flugelda með það að markmiði að draga verulega úr mengun og hættu sem af þeim stafar.
Spurning að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu taki sig saman um samstarf við Landsbjörg sem yrði falið að sjá eftirleiðis um þessi flugeldamál með dyggum stuðningi sveitarfélaga og annarra aðila sem málið láta sig varða.
Það hefur gefist mjög vel á Þrettándagleði í Mosfellsbæ undanfarna áratugi og er til fyrirmyndar. Þar er með öllu stranglega bannað að skjóta upp flugflaugum og varhugaverðum blysum enda þúsundir fólks samankomin og mjög mikil slysahætta er til staðar ef handvömm verður. Og Björgunarsveitinni Kyndli hefur verið falið að sjá um flugeldasýningu í lok atburðar með mjög góðum árangri. Með því að hafa betri stjórn á þessum flugeldamálum mættu sveitarfélög spara sér umtalsverðan kostnað af tiltekt eftir gamlárskvöld.

Annað mál:
Göngustígar eru víða í Mosfellsbæ en ekki alls staðar. Hvers vegna hefur t.d. ekki verið lagður göngustígur meðfram veginum að Reykjalundi frá Reykjavegi? Þar hefur um langa tíð verið starfrækt endurhæfingarstöð og óskiljanlegt að þarna liggur enginn göngustígur en komast má að Reykjalundi gangandi eftir krókaleiðum. Hvað er heppilegra en góðir göngustígar – einnig meðfram eða í nánd við aðalökuleið að Reykjalundi. Þá er Varmáin sérstakur kapítuli út af fyrir sig. Þar þarf að ljúka viðgerð stígsins meðfram ánni og er til vansa hversu það hefur dregist.

Víða um Mosfellsbæ eru auk þess gamlir göngustígar. Sumir þeirra eru börn síns tíma, voru fremur illa lagðir með fremur lélegum undirbúningi. Aðrir eru einfaldlega of mjóir og þyrfti annaðhvort að breikka eða leggja annan til viðbótar.

Við verðum að vinna sameiginlega að bæta umhverfi okkar og gera umhverfið betra fyrir börnin sem og alla aðra borgara.

Guðjón Jensson
arnartangi43@gmail.com