Máttur eldhúsborðsins
Mikill árangur hefur náðst í forvörnum hér á landi á síðustu 20 árum í að draga úr unglingadrykkju og reykingum ungmenna.
Það er margt sem skýrir þennan árangur en nefna má gott forvarnarstarf, aukna þátttöku barna í skipulögðu íþrótta – og tómstundastarfi og síðast en ekki síst samverustundir með fjölskyldunni. Í dag glímum við við nýjar áskoranir en kvíði og vanlíðan er að aukast á meðal barna og unglinga eða loks farið að opna augun fyrir þeim vanda.
Hagir og líðan barna
Mosfellsbær hefur líkt og mörg önnur sveitarfélög látið gera kannanir á högum og líðan barna frá 5.- 10. bekk. Einnig eru gerðar kannarnir varðandi notkun á áfengi og tóbaki. Niðurstöður síðustu ára sýna að mikill árangur hefur náðst og hefur Mosfellsbær stutt vel við íþrótta- og tómstundastarf í bænum.
Á síðust vorönn var lögð könnun fyrir nemendur í 5. – 7. bekk um hagi og líðan og voru niðurstöður kynntar fyrir fræðslunefnd. Niðurstöður þessarar könnunar eru ekki góðar og kemur fram að börnin vilji meiri tíma með foreldrum sínum, að mörg börn eiga ekki vini og of mörgum börnum líður illa. Þetta er ekki gott. Sagt er að miðstigið, 5. – 7. bekkur, sé hið nýja unglingastig. Á miðstiginu eru börnin farin að máta sig við aðra og það sem skiptir máli í lífinu er góð fjölskylda, góð sjálfsmynd, góðir félagar og góð líðan í skólanum. Ef þetta þrennt er í lagi gengur námið betur. En því miður er það ekki alltaf raunin og þá verður fullorðna fólkið að grípa inní.
Matartíminn er mikilvægur
Börn eru á ábyrgð foreldra en að segja að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn er ekki orðum aukið. Reglur á heimilinu eins og matartími og háttatími eru börnum afar mikilvægar. Matartíminn er mikilvægur því þá gefst tækifæri til að ræða saman og þjálfa góð samskipti.
Börn eru ekki sérfræðingar í samskiptum og þurfa þjálfun í þeirri list. Börn þurfa hlustun, fá að kvarta og væla undan öllu. Það er allt í góðu. Þau þurfa ekki endilega svör en sannarlega hlustun. Fái barnið hlustun og virðingu í samskiptum lærir það að treysta þeim fullorðna og tekur framkomuna til fyrirmyndar sem eykur líkur á að barnið velji rétt. Fjölskyldan er mikilvægust sama hvernig hún er samsett og eldhúsborðið þarf ekki að vera merkilegt.
Við foreldrar
Gott foreldrastarf í skólunum, samstaða í bekk, umburðarlyndi og gleði bætir líðan barna í skólanum. Í grunnskólum Mosfellsbæjar hefur nýtt fólk boðið sig fram í stjórnir foreldrafélaganna og þar ríkir mikill metnaður. Foreldrastarfið er mikilvægur stuðningur við störf umsjónarkennarans og við félagstarfið í skólunum.
Allir nemendur eiga að finna að þeir eru velkomnir og tilheyra hóp þar sem virðing er borin fyrir bekkjarfélaganum. Skólinn er líka staður þar sem vönduð samskipti eru æfð og stunduð. Góður bekkjarandi og heilbrigð skólamenning er gríðarlega mikil forvörn. Þar spila kennarar stærsta hlutverkið.
Það er einlæg trú mín að foreldrastarfið í grunnskólum bæjarins eigi enn eftir að eflast og styrkjast, börnum okkar til framdráttar.
Kolbrún G. Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi og
formaður fræðslunefndar Mosfellsbæjar.