Peter Bronson ráðinn golfkennari

Davíð Gunnlaugsson íþróttastjóri GM, Peter Bronson golfkennari og Gunnar Ingi framkvæmdastjóri GM.

Davíð Gunnlaugsson íþróttastjóri GM, Peter Bronson golfkennari og Gunnar Ingi framkvæmdastjóri GM.

Í ágúst auglýsti GM stöðu golfkennara hjá klúbbnum lausa til umsóknar og hátt í 80 umsóknir bárust.
Ráðningarferlið tók töluverðan tíma en niðurstaðan var sú að ráða Peter Bronson til starfa. Peter mun því á næstu vikum hefja störf og starfa samhliða Davíð Gunnlaugssyni íþróttastjóra Golfklúbbs Mosfellsbæjar við þjálfun barna og ungmenna hjá klúbbnum.

Atvinnumaður og hefur lokið PGA-námi
Peter Bronson er fæddur í Boston í Bandaríkjunum árið 1972. Peter útskrifaðist frá Georgetown University þar sem hann lærði tungumál og heimspeki og lék í 1. deild í bandaríska háskólagolfinu.
Árið 1996 flutti Peter til Spánar þar sem hann lauk PGA-námi og lék sem atvinnumaður. Árið 2004 sigraði hann tvisvar á EPD-mótaröðinni, sem nú heitir ProGolf Tour. Peter lék einnig á Challenge-mótaröðinni árið 2008.

Fyrrum landsliðsþjálfari Póllands
Árið 2006, eftir að Peter sigraði á Opna Pólska mótinu í fyrra skiptið af tveimur, flutti hann til Póllands. Peter hefur starfað þar síðan sem golfkennari og landsliðsþjálfari Póllands og er ábyrgur fyrir unglingalandsliðinu. Peter hefur verið þjálfaður hjá PGA í Evrópu og hefur komið að menntun golfkennara á Spáni og í Póllandi.
Peter starfaði sem formaður PGA á Spáni árið 2011 til 2012 og hefur gegnt fjölda annarra trúnaðarstarfa í gegnum tíðina. Hann hefur skrifað fjöldann allan af greinum í tímaritum ásamt því að skrifa bókina „Golf Abroad“.
Peter hefur einnig réttindi sem dómari frá PGA í Evrópu og hefur dæmt á Evrópumótaröðinni. Eins og sjá má hefur Peter komið víða við á sínum ferli. Að síðustu má nefna til gamans að hann bar kylfurnar fyrir Miguel Angel Jimenez í nokkur skipti á Evrópumótaröðinni en það er heiður sem ekki öllum hlotnast.