Markmið morgundagsins

Ég er að vinna með öflugu teymi þessa dagana. Verkefninu sem við erum að vinna að núna miðar vel áfram og það er mjög líklegt að við komumst mun lengra með það en gert var ráð fyrir í upphafi þess. Ein af ástæðum þess er að markmiðin eru skýr. Bæði aðalmarkmiðið og sömuleiðis markmið hvers dags. Þegar vinnudagurinn er að klárast tökum við stuttan fund, förum yfir hvað við fórum langt með markmið þess dags og setjum okkur markmið fyrir morgundaginn miðað við stöðuna í dag. Tökum svo vinnurispu, klárum daginn og höldum brattir heim – sérstaklega þegar við höfum komist lengra með verkefnið en við áttum von á.

Þetta vinnulag hentar mér mjög vel. Og það er einfalt að yfirfæra það yfir á lífið sjálft. Þú setur þér markmið og vinnur að því alla daga. Gerir eitthvað sem færir þig nær markmiði þínu á hverjum degi, sama hversu stórt eða smátt það er. Tekur stöðuna í lok dags, ákveður hvað þú getur gert á morgun til að komast nær stóra markmiðinu og framkvæmir það svo.

Stóra markmiðið getur verið hvað sem er, en það þarf að vera eitthvað sem þér finnst spennandi og þannig að þér finnist á þeim tímapunkti sem þú setur þér markmiðið að það sé alls ekkert mjög líklegt að þú náir því. Þannig verður markmiðið spennandi og hvetjandi. Og með því að vinna að því á hverjum degi, færist þú nær.

Það að setja markmið fyrir morgundaginn heldur manni á tánum og í fókus. Allt verður skýrara og það er miklu skemmtilegra að vinna á þennan hátt heldur en að mæta bara í vinnuna og sinna fyrirliggjandi verkefnum. Sama hver vinnan og verkefnin eru.

Talandi um skemmtileg markmið. Hið árlega utanvegarþrautahlaup, KB þrautin, verður haldin laugardaginn 21. maí 2022. Þið lásuð það fyrst hér!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 9. desember 2021