Afturelding spilar í Pepsi Max deild kvenna á næsta tímabili

Birna Kristín Jónsdóttir

Það var frábær stemming á Fagverksvellinum fimmtudaginn 9. september. Rúmlega 500 manns voru mættir á völlinn í boði Jako til þess að styðja stelpurnar okkar í úrslitaleik á móti FH um sæti í deild þeirra bestu að ári og ný vallarklukka leit dagsins ljós.
Ljóst var fyrir leikinn að liðið sem ynni færi upp, leikurinn var í járnum framan af en um leið og fyrsta markið kom var þetta aldrei spurning og niðurstaðan 4 – 0 fyrir Aftureldingu. Liðið stóð sig hrikalega vel, brjáluð barátta í stelpunum allan tímann og lang markahæsta konan í Lengjudeild í ár kemur úr okkar röðum, Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir skoraði 23 mörk og ég held að þetta hafi verið skrifað í skýin en hún spilar einmitt í treyju númer 23.
Teymið allt í kringum liðið í sumar hefur verið samstíga og mjög öflugt. Mig langar að nota tækifærið til að þakka öllum sjálfboðaliðunum sem hafa lagt hönd á plóginn. Þetta gerist ekki af sjálfu sér það er alveg ljóst. Sjálfboðaliðinn er einn mikilvægasti hlekkurinn í okkar starfi og eigum við mikið undir ykkur öllum.
Við erum ótrúlega rík og í raun ótrúlegt hvað fólk er tilbúið að leggja mikið á sig. Ég tala fyrir mig sjálfa að oft og tíðum er starfið erfitt og ég velti alveg fyrir mér af hverju ég er að eyða öllum þessum tíma í þetta.
Svo koma svona uppskerustundir og þá er þetta allt þess virði – Takk öll. Áfram Afturelding.

Birna Kristín Jónsdóttir,
formaður Aftureldingar.