Krefjandi vinna en afar skemmtileg

Ingvar Hreinsson múrari og verkstjóri hjá Vegagerðinni sér um viðhald á ljósvitum um land allt.

Fyrsti vitinn við strendur Íslands var byggður á Valahnúki á Reykjanesi árið 1878 en í dag eru þeir alls 104 að tölu og er þá ótalinn fjöldi innsiglinga-og hafnarvita í eigu og umsjá sveitarfélaga.
Óhætt er að fullyrða að með tilkomu vitabygginga hafi iðnbyltingin hafist á Íslandi. Bygging þeirra krafðist tækniþekkingar og verkkunnáttu sem áður var óþekkt og þetta voru fyrstu íslensku steinsteypubyggingarnar.
Margir hafa gaman af því að skoða vita landsins á ferðalögum sínum um landið en fáir þekkja þá jafn vel og Mosfellingurinn Ingvar Hreinsson en hann hefur haft yfirumsjón með þeim frá árinu 1996.

Ingvar Hreinsson er fæddur í Hafnarfirði 1. apríl 1957. Foreldrar hans eru þau Fjóla Svandís Ingvarsdóttir húsmóðir og Hreinn Þorvaldsson múrarameistari og starfsmaður Mosfellshrepps en þau eru bæði látin.
Systkini Ingvars eru Eygló Ebba f. 1950 d. 2014, Hrafnhildur f. 1953, Þorvaldur f. 1960 og Jóhanna Hrund f. 1962. Ingvar á einnig sex stjúpsystkini.

Horfðum á sjónvarpið í gegnum glugga
„Ég er alinn upp í Markholtinu og það var gott að alast þar upp, mamma var alltaf heima og tók á móti manni. Það var mikið af börnum í götunni og því alltaf líf og fjör.
Við krakkarnir sem bjuggum við það að hafa ekki sjónvarp á heimilum okkar bönkuðum oft upp hjá þeim vinum sem höfðu það til staðar og fengum að horfa á með þeim, oft bara í gegnum gluggann. Þetta var að sjálfsögðu kanasjónvarpið og skemmtilegast var að horfa á sunnudagsmorgnum, þá var oft ansi troðið við gluggana,“ segir Ingvar og brosir að minningunni.

Flísalagði sturtuklefana að Varmá
„Ég gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar og mér leiddist mikið í skólanum því mér fannst heimalærdómurinn alveg skelfilega leiðinlegur. Uppáhaldsfögin mín voru sund og leikfimi og uppáhaldskennararnir mínir Ágúst Óskarsson og Páll Aðalsteinsson.
Eftir útskrift úr gaggó fór ég að vinna í steypuvinnuflokki hjá Sigfúsi Árnasyni og fór þaðan yfir í Þórisós jarðverktaka. Þaðan lá leiðin í Iðnskólann í Reykjavík í múrverk. Lærifaðir minn á iðnskólaárunum var Magnús Sigurðsson og starfaði ég undir hans handleiðslu fyrstu árin hjá Byggung í Mosfellsbæ.
Ég útskrifast árið 1981 og fór þá að starfa sjálfstætt, fyrst um sinn eingöngu við múrverk en síðan með föður mínum og Þorvaldi bróður við flísalagnir og aringerð. Eitt af fyrstu verkefnum okkar feðga var að flísaleggja sturtuklefana í íþróttahúsinu að Varmá.
Við bræðurnir stofnuðum síðan verktakafyrirtækið Múr­vang.“

Samheldin stórfjölskylda
Eiginkona Ingvars er Laufey Jóhannsdóttir klæðskeri og matráður hjá Innes heildverslun. Synir þeirra eru Jens f. 1983 og Hrafn f. 1985. Barnabörnin eru fjögur.
Helstu áhugamál Ingvars eru golf, stangveiði, bjórbrugg, handboltagláp, Afturelding og ferðalög.
„Stórfjölskyldan er mjög samheldin og við ferðumst mikið saman bæði innanlands sem utan, gistum í sumarbústöðum, fellihýsum eða vel völdum vitum. Þegar við leggjum land undir fót þá hefur Flórida oftast orðið fyrir valinu.“

Renndi blint í sjóinn með innkaupin
„Árið 1996 sá ég atvinnuauglýsingu í Morgunblaðinu þar sem óskað var eftir múrara til Vita- og hafnamálastofnun sem síðar var breytt í Siglingastofnun Íslands. Ég sótti um og var svo heppinn að fá starfið. Árið 2013 var Siglingastofnunin lögð niður og færðust þá vita- og hafnamál yfir til Vegagerðarinnar.
Í fyrstu hafði ég yfirumsjón með viðhaldsverkefnum á ljósvitum Íslands en svo þróaðist þetta út í það að ég skipulagði verkefnin og vann þau sjálfur ásamt öðrum. Einnig sá ég um öll innkaup stofnunarinnar á efni og tækjum til viðhaldsins að bílum undanskildum.
Þegar ég fór í minn fyrsta túr á varðskipi þá renndi ég blint í sjóinn með efniskaup, ég keypti svo mikið efni að það dugði til viðhaldsvinnu í þrjú ár,“ segir Ingvar og brosir.

Það þarf alltaf að taka tillit til veðurs
„Fyrstu árin með vitana voru mjög erfið vegna múrskemmda. Vitarnir standa oft á afskekktum stöðum svo það er erfitt er að komast að þeim. Sumir eru á eyjum og aðrir á útnesjum þar sem eru engir vegir. Það fer stundum meiri tími í að koma efni og búnaði að og frá vitunum heldur en tíminn við vinnuna sjálfa.
Stundum þarf þyrlu, skip, báta eða bíla til að koma öllu til sem þarf sem næst verkefninu.
Í sumum tilfellum þarf að gæta sjávarfalla og það þarf alltaf að taka tillit til veðurs. Veðurfar við vitana er ekki það sama og í byggð, þar er yfirleitt rok og einhverjum gráðum kaldara. Vinna við þessar aðstæður er bara alls ekki fyrir alla.“

Þakklátur fyrir kennsluna
„Ég var svo heppinn að það voru reyndir starfsmenn í vitahópnum sem kenndu mér mikið um meðferð gúmmíbáta og utanborðsmótora. Þeir voru líka vel að sér um hvort og hvar væri hægt að lenda bátunum. Hjá þeim lærði ég að ganga tryggilega frá bátunum hvort sem þeir voru festir við ból eða akkeri. Þeir kenndu líka að hnýta hnúta og aðra handavinnu. Það var ómetanlegt því mesta hættan á sjó var í lendingum við vitana.
Ég man hvað það var oft erfitt að vera með heilt varðskip á leigu því pressan var mikil frá skipstjórunum að tímaplönin stæðust, dagarnir urðu því oft ansi langir.“

Starfið krefst mikillar skipulagningar
„Meginregla hjá okkur er að komast í viðhald á vitunum á fimm ára fresti. Þetta er mikil vinna og krefst skipulagningar. Það þarf að skafa og mála veggi og gólf, ryðverja, mála járnfleti eins og t.d ljóshúsin á vitunum. Fara þarf yfir allt tréverk og mála það, skipta um brotnar rúður og eitt og annað sem kemur upp á. Ekki má gleyma að þrífa vel gler og linsu sem lýsir út í myrkrið.
Vinna í eyjavitum fer mikið fram í tveggja manna körfum. Þær eru hífðar upp í vitann með köðlum í talíum/blökkum á handafli og þegar karfan er komin upp þá fer maðurinn sem bíður í vitanum í körfuna og festir hana vel. Svo vinna menn sig rólega niður vitann í körfunni þangað til vitinn er fullmálaður.“

Gaman að vinna með unga fólkinu
„Þetta starf á mjög vel við mig, ég hlakka alltaf til að komast af skrifstofunni og út á land á vorin og svo eins að koma inn í notalega innivinnu á haustin en þá hef ég aðallega séð um líkanagerð á höfnum landsins.
Það er gaman að vinna með unga fólkinu í stuttum törnum, það er hresst og skemmtilegt. Þau eru ekki að velta fyrir sér hvað sé í fréttum eða einhverjum kosningum. Það er mest talað um bíómyndir, þætti og tónlist og þau eiga það sameiginlegt að þeirra kynslóð er sú besta, að sjálfsögðu,“ segir Ingvar og brosir þegar við kveðjumst.

Mosfellingurinn 4. júní 2020
ruth@mosfellingur.is