Mælir ekki með sjúkrahúsvist í Króatíu

Andrea Kristín Gunnarsdóttir fór í örlagaríka hjólaferð ásamt vinkonum sínum þeim Helenu Byron og Hönnu Sigríði Stefánsdóttur til Króatíu í september síðastliðnum. Vinkonurnar flugu til Split og fóru þaðan í viku siglingu með lítilli snekkju sem sigldi á milli króatísku eyjanna þar sem þær hjóluðu um og nutu lífsins.
„Við vorum þrjár íslenskar valkyrjur í 30 manna hópi sem var frá öllum heimshornum, þetta var frábær hópur sem var eiginlega eins og lítil fjölskylda.
Við hjóluðum um eyjarnar með fararstjóra sem var alveg einstakt, algjör draumaferð þar til ég lenti í slysi,“ segir Andrea og bætir við að Króatía sé æðislegt land en mælir hvorki með sjúkrahúsi né læknaþjónustunni þar.
„Það var næstsíðasta daginn sem ég varð fyrir óhappi, ég lenti með framdekkið á hjólinu ofan í holu og það var bara eins og ég keyrði á vegg. Ég flaug fram fyrir mig og í raun er ekki vitað hvað gerðist en ég skarst illa á vinstri ökkla ásamt því að fara úr lið.
Fóturinn var mjög illa farinn, stórt opið og ljótt sár. Það má eiginlega segja að ég hafi verið heppin að halda fætinum. Ég var lemstruð í skrokknum en seinna kom svo í ljós að það hafði komið sprunga í upphandlegginn á mér.“

Níu daga á sjúkrahúsi í Split
Andrea fór með sjúkrabíl að þyrlu sem flutti hana á sjúkrahúsið í Split þar sem hún dvaldi í níu daga. Hún fór í stóra aðgerð við komuna á sjúkrahúsið þar sem sárið var hreinsað og saumað saman og tveir pinnar settir í hælinn.
„Þessi dvöl mín á þessu sjúkrahúsi er eiginlega efni í heila bók, ég hefði bara ekki trúað því að svona aðstæður væru til í dag. Þarna talaði engin ensku, maturinn var algjörlega óætur og þú gast ekki beðið um vatn.
Ég var á fimm manna stofu, þetta var eins og góð blanda af geðveikrahæli og elliheimili. Ég var þó heppin því ég hafði bjöllu við mitt rúm og þurfti því að nota hana bæði fyrir mig og hinar á stofunni,“ segir Andrea sem er óendanlega þakklát fyrir að hafa haft vinkonur sínar með sér í þessum óvenjulegu aðstæðum en þegar hún fór með þyrlunni vissi enginn hvert hefði verið farið með hana.

Þakkar þjónustuna hjá VISA
Andrea lenti svo í því að fá sýkingu í sárið á þriðja degi og þurfti að gangast undir aðra aðgerð. Þarna var ljóst að hún væri ekki að fara heim í bráð. „Þegar ég þurfti að fara í seinni aðgerðina og gerði mér grein fyrir því að ég væri ekki að fara heim í bráð, hrundi ég eiginlega niður.
En sem betur fer fékk ég frábæra þjónustu hjá SOS sem er ferðatryggingin í gegnum VISA kortið, þeir komu því í kring að ég fékk að fara heim á níunda degi. Þeir gengu frá greiðslu fyrir sjúkrahúsvistinaa og bókuðu far fyrir okkur Hönnu heim, en hún dvaldi með mér allan tímann í Króatíu. Ég mun aldrei aftur kvarta yfir því að borga árgjald fyrir VISA kortið mitt,“ segir Andrea hlæjandi.

Spítalavist og endurhæfing
Heimferðin tók vel á en með dyggri aðstoð Hönnu komst Andrea heim til Íslands. Þegar þangað var komið fór hún beint á Landspítalann í Fossvogi þar sem hún dvaldi næstu 10 vikur, fyrstu tvær vikurnar var hún í einangrun. „Það var ólýsanleg tilfinning að koma heim, hitta fólkið sitt og upplifa sig í öruggum höndum. Vikurnar á Landspítalanum voru fljótar að líða og ég er óendanlega þakklát fyrir fjölskylduna mína og vini, það leið ekki sá dagur að ég fékk ekki skemmtilega heimsókn.
Í framhaldinu fór ég í endurhæfingu á Grensás og var þar á legudeildinni í fimm vikur. Eftir það fór ég á dagdeildina hjá þeim og mætti þar daglega í frábæra endurhæfingu fram að COVID. Ég er eiginlega orðlaus yfir því frábæra starfi sem fram fer á Grensásdeildinni og þakka fyrir dásamlegt viðmót og einstaka þjónustu sem ég hef fengið hjá þeim.

Verkefni sem ég þarf að tækla
Andrea hefur tekist á við þetta verkefni með jákvæðni og æðruleysi. Hún starfar við ráðgjöf og þjónustu hjá Mentor og hefur frá 1. mars unnið 50% starf að heiman.
Þann 4. maí fór Andrea í aðgerð í Orkuhúsinu þar sem ökklinn á henni var stífaður, það var það eina í stöðunni þar sem fóturinn var svo illa farinn. „Nú er ég að jafna mig eftir þessa aðgerð, í lok júní má ég fara að tylla í fótinn og ég er búin að setja mér það markmið að ári eftir slysið, í september, ætla ég að geta gengið hækjulaus.
Ég er í eðli mínu jákvæð og hress og lít á þetta sem verkefni sem ég ætla að leysa. Ég er bjartsýn á framtíðina, ætla að fara að byggja mig upp aftur og koma mér í gott form. Ég er svo þakklát fyrir lífið og fólkið í kringum mig sem hefur staðið með mér og stutt mig í gegnum þennan tíma,“ segir Andrea að lokum.