Körfubolti í Mosfellsbæ – að sumri og vetri
Í Mosfellsbæ hefur verið rekin körfuboltadeild innan Aftureldingar um árabil. Starfið hefur í gegnum árin átt sínar hæðir og lægðir. Síðustu tvö ár hefur verið lagður talsverður metnaður í að reka deildina og hefur það skilað sér í fjölgun iðkenda.
Markmiðið með starfinu er að börn í Mosfellsbæ hafi aðgang að fjölbreyttu úrvali tómstunda. Flestir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og iðkendur körfunnar hafa fæstir verið að koma úr öðrum deildum eða íþróttafélögum heldur eru þetta börn sem hafa ekki fundið sig annars staðar.
Síðustu tvö sumur hefur verið boðið upp á sumaræfingar þar sem þátttakendur hafa fengið að leika sér í körfu úti og inni og allir hafa fengið bolta að gjöf frá Körfuknattleikssambandi Íslands. Framtakinu hefur verið vel tekið og mjög góð þátttaka. Menntaðir og reynslumiklir þjálfarar af báðum kynjum hafa leitt starfið og áhersla hefur verið lögð á að bjóða upp á góða og faglega þjálfun.
Í haust bætist við flokkur og þá verða í boði æfingar fyrir krakka í 1. til 7. bekk. Mikill uppgangur hefur verið í íþróttinni síðustu misseri og það hefur bein áhrif á starf í svona deild. Önnur íþróttafélög hafa boðið Aftureldingu sérstaklega velkomna í körfu og okkur hefur verið vel tekið.
Í haust verður iðkendum sem fæddir eru 2008 boðið að æfa frítt fram að áramótum. Æfingatímar eru tilbúnir og þjálfarar klárir og við hlökkum til að hefja starfið og bjóðum alla velkomna að koma og prófa að spila körfu. Áfram Afturelding!
Ingvar Ormarsson.
Formaður körfuknattleiksdeildar Aftureldingar.