Bæjarhátíð Mosfellsbæjar haldin um helgina
Að vanda verður líf og fjör í Mosfellsbæ þegar bæjarhátíðin Í túninu heima fer fram helgina 24.-27. ágúst. Hátíðin heppnaðist gríðarlega vel í fyrra eftir tveggja ára hlé vegna heimsfaraldurs.
Íbúar, félagasamtök og fyrirtæki taka virkan þátt í hátíðinni og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Þekktir liðir verða á sínum stað, svo sem flugvéla- og fornvélasýning á Tungubökkum, kjúklingafestival og Pallaball, en einnig opið hús á slökkvistöðinni við Skarhólabraut sem notið hefur mikilla vinsælda.
Setning og ullarpartý á föstudagskvöld
Dagskrá hátíðarinnar verður veglegri með hverju árinu er dagskráin farin að teygja sig langt fram í vikuna. Formleg setning fer þó fram á föstudeginum. Skrúðgöngur í hverfalitunum fjórum leggja af stað frá Miðbæjartorgi kl. 20:30 á föstudag með hestamannafélagið Hörð í broddi fylkingar. Þaðan liggur leiðin í Álafosskvos þar sem hátíðin er sett. Að því loknu verður Ullarpartý með brekkusöng og skemmtidagskrá fyrir alla fjölskylduna.
Í Álafosskvos fer fram markaður og skátafélagið Mosverjar skapar notalega kaffihúsastemningu.
Nýjung við hátíðina í ár er Kjúllinn, sem er tónlistarveisla í Hlégarði á föstudagskvöldið auk upphitunar fyrr um daginn.
Heilsueflandi dagskrárliðir
Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag og því vel við hæfi að á dagskrá séu Fellahringurinn, fótboltamót og Tindahlaupið, en það er eitt vinsælasta utanvegahlaup landsins. Fjórar vegalengdir eru í boði, einn, þrír, fimm eða sjö tindar á fellunum umhverfis bæinn.
Mosfellingar bjóða heim
Mosfellingar taka vel á móti gestum og gangandi, skreyta hús og garða sína í hverfislitunum og bjóða heim.
Fjölbreytileg dagskrá er í görðum bæjarbúa og opnar vinnustofur víða.
Hápunktur á torginu
Stórtónleikar á Miðbæjartorgi eru hápunktur hátíðarinnar. Þar skemmta landsþekktar hljómsveitir ásamt heimamönnum. Kynnir verður Dóri DNA.
Frítt verður í Varmárlaug og á Gljúfrastein allan laugardaginn. Dagskrá hátíðarinnar má finna hér.