Kjúklingarnir orðnir að kalkúnum
Þrándur Gíslason er kominn aftur heim eftir tveggja ára útlegð á Akureyri.
Hvernig er að vera kominn aftur í Mosó?
Það er alveg yndislegt, alveg hrikalega gott. Við fjölskyldan erum búin að koma okkur vel fyrir í Kardimommubænum í Þverholti, við hliðina á Einari Scheving. Ég er Kasper, Jesper og hann er Jónatan. Svo er Fiddi þarna líka, hann er bæjarfógetinn eða í raun löggan í blokkinni. Það er gott að fíla sig velkominn á ný.
Verður ekki barátta um línustöðuna í vetur?
Jú, það verður samblanda af baráttu og samstöðu. Það er bara jákvætt og allir í góðum fíling. Af því sem ég hef séð og kynnst Einari Andra þjálfara þá er hann mjög flinkur í að finna öllum hlutverk, þannig að ég hef engar áhyggjur.
Ertu hjátrúafullur?
Nei, voða lítið. Mig langaði alltaf að vera með eitthvað spes. En ég er alltaf að skipta um númer og nærbuxur.
Hvernig er stemningin í liðinu?
Stemningin er mjög góð. Við erum búnir að taka nokkra æfingaleiki og erum að koma ferskir úr æfingaferð að norðan.
Kjúklingarnir eru orðnir að kalkúnum, orðnir svaðaleg stykki og mikið hungur í þeim. Rosa gott fyrir allt yngriflokkastarfið að vera með unga og öfluga handboltamenn með hjartað á réttum stað.
Ég hef fulla trú á því að Mosó sé aftur að fara standa undir nafni sem handboltabær. Það er orðið tímabært. Það verður stuð og stemming á pöllunum. Nú mæta allir með hrossabresti og þokulúðra og gera allt vitlaust í íþróttahúsinu í vetur.
Síðasti vetur var skemmtilegur, hvernig verður þessi?
Hann verður góður, nú bætum við bara ennþá meira í. Ágætt að bæta aðeins í þessa reynslu sem vantaði upp á þarna á lokasprettinum í vor.
Hver er besti handboltamaður allra tíma?
Róbert Sighvatsson, hann er legend.
Sérstakt aukablað um meistaraflokk karla í handknattleik fylgdi með Mosfellingi 10. september.
Næsti heimaleikur fer fram að Varmá laugardaginn 19. september kl. 16:00. Afturelding – Akureyri.