Kristín Þorkelsdóttir sýnir í Listasalnum

Mynd af Salóme systur Kristínar og ber titilinn Forseti alþingis.

Mynd af Salóme systur Kristínar og ber titilinn Forseti alþingis.

Þann 18. september kl. 17 opnar sýning á verkum eftir Kristínu Þorkels­dóttur í Listasal Mosfellsbæjar. Á sýningunni sem ber yfirskriftina ÁSÝND samferðafólks á lífsfleyinu er sjónum fyrst og fremst beint að portrettverkum Kristínar. Sýningin spannar allt frá eldri teikningum að nýjum verkum og einnig verða til sýnis skissubækur, dagbækur og vinnuteikningar. Kristín á langan feril að baki bæði sem grafískur hönnuður og sem myndlistarmaður. Eftir Kristínu liggur umfangsmikið safn grafískrar hönnunar og má þar nefna hönnun hennar á íslenskum peningaseðlum og íslenska vegabréfinu. Auk þess hefur Kristín hannað fjöldann allan af vöruumbúðum, bókakápum og merkjum. Hún teiknaði merki Mosfellsbæjar árið 1968, það er tilvísun í sögnina um silfur Egils. Sýningin stendur til 10. október. Sýningarstjóri er Birta Fróðadóttir. Meðfylgjandi mynd er af Salóme systur Kristínar og ber titilinn Forseti alþingis.