Einar eldar með börnunum á Reykjakoti
Stofnanir Mosfellsbæjar taka þátt í heilsueflandi samfélagi.
„Heilsueflandi samfélag er verðugt verkefni fyrir bæjarfélag og gefur ótrúlega mörg tækifæri fyrir íbúa og starfsmenn Mosfellsbæjar,“ segir Ingunn Stefánsdóttir leikskólakennari á Reykjakoti.
„Margt er mjög vel gert í bænum og fróðlegt að heyra af öllu því góða starfi sem fer fram í stofnunum Mosfellsbæjar. Ennfremur er stuðningur og vilji til góðra verka frá stjórnsýslu bæjarins sem er sérlega mikilvægt í allri vinnu. Hér verður aðeins fjallað um fyrsta áhersluþáttinn í verkefninu en það er matur og næring.“
Áhersla á hreint mataræði
„Í leikskólanum Reykjakoti er mikið borðað, talað og hugsað um mat. Matarilmur berst daglega um hverfið og gefur falleg fyrirheit um daglegt brauð og hádegismat. Maturinn er unninn frá grunni úr fersku hráefni og allt sem hægt er keypt í heimabyggð. Mikil áhersla er lögð á hreint mataræði sem eldað er og bakað á staðnum. Þannig verður lítið um aukefni í matnum og öll innihaldsefni eru þekkt.“
Síðustu ár hafa leikskólabörnin notið góðs af visku og færni Jóhönnu B. Magnúsdóttur eða „ömmu náttúru“ við ræktun grænmetis í matjurtagarði skólans og skilar sú vinna sér í sneisafullum beðum af girnilegu grænmeti. Nú er uppskerutími og börnin taka upp grænmetið og borða það hrátt eða færa Einari matráði sem nýtir það í eldhúsi Reykjakots.
„Þetta hefur verið mjög skemmtilegt og lærdómsríkt fyrir börnin og í framhaldi kviknaði hugmynd að nýju þróunarverkefni sem er hafið í skólanum. Verkefnið er unnið í anda Jamie Oliver sem hefur um árabil unnið að breytingum skólamáltíða í Bretlandi, Bandaríkjunum og Ástralíu.“
Verkefnið kallast Kitchen Garden Project og er ætlað að kenna börnum frá leikskólaaldri um ræktun, matreiðslu og næringu í von um að bæta langtímamatarvenjur þeirra, heilsu og lífsgæði. Einar hefur fengið ráðgjöf frá teymi Jamie Olivers sem og hrós fyrir hversu vel unnið er að matarmenningu barna Reykjakots. Einar fær litla hópa í eldhúsið til sín vikulega þar sem hann kennir börnunum matreiðslu og matarfróðleik í anda Jamie Olivers.
Spennandi verkefni
„Til stuðnings verkefninu er ennfremur litið til fræðimanna sem benda á að börn fæðast ekki með getu til að velja næringarríka fæðu heldur eru matarvenjur lærðar með reynslu og menntun. Því er brýnt að kenna börnum frá unga aldri að hollur matur nærir líkamann og það er skemmtilegt að gera tilraunir í eldhúsinu. Ótrúlega fjölbreytt upplifun getur orðið við matargerð og fá börnin til dæmis að smakka alls konar krydd og grænmeti. Þetta er afar spennandi og verður gaman að fylgja þessu verkefni eftir,“ segir Ingunn Stefánsdóttir.