Kæru bæjarbúar og nærsveitungar

Hilmar Bergmann

Hilmar Bergmann

Rauði krossinn í Mosfellsbæ óskar bæjarbúum og landsmönnum öllum gleðilegs og farsæls nýs árs.
Við viljum þakka kærlega þeim fjölmörgu sem hafa ljáð okkur hluta af því dýrmætasta sem við öll eigum, þ.e. tíma, við að skapa betra samfélag á starfssvæði okkar.
Starfssvæði Rauða krossins í Mosfellsbæ er nokkuð stórt og byggðin dreifð. Við störfum því ekki aðeins í Mosfellsbæ, heldur einnig á Kjalarnesi og í Kjósinni. Verkefnin eru fjölmörg og fjölbreytileg. Sum þeirra ná út fyrir starfssvæði deildarinnar, auk þess sem við tökum þátt í ýmsum verkefnum á vegum RkÍ og alþjóða Rauða krossins. Einnig vinnum við að ýmsum verkefnum með öðrum Rauða-krossdeildum á höfuðborgarsvæðinu s.s. að neyðarvörnum og málefnum hælisleitenda.
Eftir að Útlendingastofnun tók Víðines á leigu má ætla að stór hluti hælisleitenda á Íslandi búi á starfssvæði deildarinnar, en fyrir var töluverður fjöldi hælisleitenda í Arnarholti á Kjalarnesi. Við erum einnig þannig staðsett að stór hluti erlendra ferðamanna fer í gegnum bæinn okkar á leið sinni um Gullna hringinn, uppsveitir Árnes­sýslu og Hringveginn til norðurs.
Deildin hefur því tvisvar á síðasta ári og nú þegar einu sinni á þessu ári, þó nýhafið sé, þurft að opna Fjöldahjálparstöð fyrir erlenda ferðamenn sem hafa lent í hrakningum eða slysum. Það er því í mörg horn að líta.
Deildin stóð fyrir nokkrum fjáröflunum á síðasta ári, þar sem aflað var tekna til verkefna deildarinnar. Tilgangurinn með þessum fjáröflunum var ekki síður sá að hitta íbúa svæðisins og eiga við þá samtal. Sem dæmi má nefna að deildin var með skottsölu á bæjarhátíðinni „Í túninu heima“, auk þess sem ungir og upprennandi listamenn söfnuðu fyrir deildina með tónleikum á hátíðinni.
Nú stendur yfir rúðusköfusala, þar sem fólk getur stutt við starfið og eignast í leiðinni handhæga rúðusköfu í bílinn merkta Rauða krossinum og með áletruninni „Byggjum betra samfélag“ á nokkrum tungumálum. Hægt er kaupa rúðusköfuna á skrifstofu deildarinnar í Rauðakrosshúsinu að Þverholti 7, auk þess sem hún hefur verið seld á fjölfjörnum stöðum.
Þeir fjármunir sem safnast hafa í þessum fjáröflunum renna óskiptir til verkefna deildarinnar. Einnig er hægt að styrkja starfið með því að gerast félagsmaður í deildinni. Félagsgjaldinu er mjög í hóf stillt. Deildin er svo lánsöm að vera með þónokkurn fjölda félagsmanna, en félagsgjaldið rennur óskipt til deildarinnar að frádreginni innheimtuþóknun. Að gerast félagsmaður og greiða félagsgjaldið er því góð leið til að styðja við deildina hér í Mosfellsbæ með einni hóflegri greiðslu á ári.
Vilji fólk styðja enn betur við starf RkÍ er hægt að gerast Mannvinur, en þeir greiða mánaðarlegt framlag. Það framlag rennur ekki beint til deildarinnar hér, heldur fer til ýmissa verkefna RKÍ.
Um leið og Rauði krossinn í Mosfellsbæ þakkar kærlega fyrir allan þann stuðning sem hann hefur fengið með beinum fjárstuðningi og í formi dýrmæts tíma sjálfboðaliða, þá viljum við einnig þakka fyrir allar ábendingarnar og hlý orð í okkar garð. Við hvetjum fólk áfram til að hafa samband og láta vita hvar þrengir að. Leita upplýsinga um starfið og taka þátt. Hér gildir að betur sjá augu en auga og margar hendur vinna létt verk.
Það er einnig ómetanlegt fyrir okkur sjálfboðaliðana og verkefnastjóra að heyra að fólk kunni að meta það sem vel er gert og eftir því tekið sem við gerum til að byggja betra samfélag.

Fyrir hönd Rauða krossins í Mosfellsbæ,
Hilmar Bergmann, formaður stjórnar.