Gas- og jarðgerðarstöð rís á Álfsnesi

Kolbrún Þorsteinsdóttir

Kolbrún Þorsteinsdóttir

Nýlega var undirritað samkomulag um tæknilausn fyrir nýja gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi.
Forsaga þess máls er að árið 2013 gerðu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að frumkvæði Mosfellsbæjar, eigendasamkomulag um ráðstafanir varðandi meðhöndlun úrgangs og byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi. Ástæða þessa samkomulags var fyrst og fremst sú að urðunarstaðurinn í Álfsnesi hefur verið okkur Mosfellingum til mikilla ama sl. ár. Lyktarmengun hefur verið frá staðnum og kvartanir borist frá íbúum. Við það var auðvitað ekki unað.
Með þessu samkomulagi skuldbundu eigendur SORPU bs. sig til að vinna sameiginlega að heildarsýn til lengri framtíðar í úrgangsmálum og að úrgangur og förgun hans yrði ekki nærumhverfinu til ama. Niðurstaðan var að reisa gas- og jarðgerðarstöð á Álfsnesi.

Stórt skref í umhverfismálum – urðun í Álfsnesi hætt
Mosfellsbær hefur lagt sig fram við að gæta hagsmuna íbúa gagnvart málefnum Sorpu bs. allt frá því að Reykjavíkurborg ákvað að leggja niður urðunarstaðinn í Gufunesi og finna honum nýjan stað á Álfsnesi.
Bygging gas- og jarðgerðarstöðvarinnar er stórt skref í umhverfismálum á höfuðborgarsvæðinu og afar mikilvægt fyrir Mosfellsbæ. Með tilkomu hennar verður hætt að urða heimilisúrgang en í stað þess verðmæt gas- og jarðgerðarefni unnin úr honum. Áætlað er að bygging stöðvarinnar hefjist á þessu ári og miðað við að hún verði tekin í notkun síðari hluta árs 2018.

Hafsteinn Pálsson

Hafsteinn Pálsson

Stefnt er að því að yfir 95% af heimilissorpi verði endurunnið þegar stöðin er komin í gagnið. Um 70% af því sem fer í venjulega heimilistunnu í dag er lífrænt efni sem nýtist til framleiðslu metans og jarðvegsbætis. Samkvæmt eigendasamkomulaginu verður urðun í Álfsnesi hætt fyrir árið 2021

Kostir gas – og jarðgerðarstöðvar
Gas- og jarðgerðarstöðin mun geta tekið við um 35 þúsund tonnum af blönduðum heimilisúrgangi á ári. Hægt verður að stækka stöðina þegar þörf verður á því. Stefnt er að því að auka endurvinnsluhlutfall þessa hluta úrgangsins einnig.
Samkvæmt Landsáætlun er stefnt að því að árið 2020 verði einungis 15% af þessum úrgangi urðaður, árið 2021 verður ekki lengur mögulegt að urða lífrænan og/eða brennanlegan úrgang og árið 2025 er markmiðið að undir 5% af öllum úrgangi sem berst SORPU verði ekki endurnýttur.
Meginástæða fyrir byggingu stöðvarinnar er að:
• endurnýta lífrænan úrgang.
• draga úr lyktarmengun.
• minnka urðun á blönduðum heimilisúrgangi.
• nýta innlenda orku í stað innflutts eldsneytis.
• minnka sótspor íbúa með því að nýta metanið sem ökutækjaeldsneyti.

Betri tímar
Með nýrri gas- og jarðgerðarstöð SORPU verður nánast allur lífrænn úrgangur sem til fellur frá heimilum á svæðinu endurunninn. Hér er því um mjög metnaðarfullt verkefni að ræða sem mun gjörbylta vinnslu úrgangs hérlendis og stuðla að aukinni endurvinnslu á öðrum tegundum úrgangs.
Við Mosfellingar megum því eiga von á betri tímum og njóta sumars án lyktar og tilheyrandi óþæginda og því ber að fagna

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir, stjórnarmaður í Sorpu og bæjarfulltrúi
Hafsteinn Pálsson, varamaður í stjórn Sorpu og bæjarfulltrúi