Kæru FaMos félagar

Harald S. Holsvik

Harald S. Holsvik

Gleðilegt nýtt ár til ykkar allra með þökk fyrir liðin. Fram undan er mikil og stórbrotin dagskrá á döfinni í samvinnu við Félagsstarfið og Elvu Björgu að Eirhömrum.
Við skulum gera allt sem við getum til að njóta þess sem í boði er. Þjóðsagnanámskeið mun byrja þann 17. janúar n.k. ef næg þátttaka fæst. Enn eru örfá sæti laus. Skráið ykkur hjá famos@famos.is sendið inn nafn, og símanúmer ásamt kennitölu.
Við erum að byrja fjórðu önnina í Módelsmíðinni og þar er svo til fullbókað. Listmálun er að hefjast á nýjan leik. Síðan eru tréútskurður, bókband, glervinnsla og hugsanlega kennsla á spjaldtölvur ef næg þátttaka fæst ásamt að venju hannyrðum.
Allar ýtarlegri upplýsingar fást hjá Félagsstarfinu að Eirhömrum. Tekið verður í spil og spilað bingó ásamt félagsvist sem mun verða auglýst nánar.

Eitt atriði fyrir aldraða og eldri borgara er að hafa eitthvað fyrir stafni og láta sér ekki leiðast.
Í mínum síðasta pistli fyrir áramót setti ég fram spurninguna: „Erum við á réttri leið?“ Ýmis lög hafa síðan verið samþykkt á Alþingi. Þar á meðal Lög um breytingu á lögum um almannatryggingar. Ég vil því skoða málið betur.
Þegar ég tók að mér formennsku í stjórn FaMos, fyrir nærri þremur árum síðan, varð mér ljóst að ein besta kjarabót fyrir þá aldurshópa sem eru í félaginu og sem hætt hafa atvinnuþátttöku, væri að knýja á um skatta­tilslakanir. Þegar á hólminn var komið var það deginum ljósara að nær útilokað væri að óska eftir tilslökun og vægari skattlagningu á eldri borgara.
Ein fyrsta ábendingin sem kom frá þingmanni úr kjördæminu var sú, að hendur alþingismanna væru svo bundnar við stjórnarskrá Íslands, sérstakleg 65. gr. um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum. Nýlega samþykkt ofannefnd lög bera því miður með sér m.a. eftirtalin atriði sem spurningar vakna um.
1. Enn er ekki búið að samhæfa lögin við eldri útgáfu laganna. Hvers vegna ekki?
2. Ef ákvæði um jafnrétti á að gilda, ættu einhleypingar að hafa sérstakar bætur vegna húsnæðis umfram gifta? Er verið að stuðla að aukinni skilnaðartíðni?
3. Sagt er manna á milli að um 4.200 einstaklingar verði af svokölluðum grunnlífeyri sem var á bilinu 40-47.000 á mánuði, ef þeirra sparnaður og ráðdeild gefur þeim meira en 531.406 kr. á mánuði. Upphæðin kemur hvergi fram í lögunum. Hvers vegna ekki? Er talan fengin fram með reiknilíkönum? Sumir segja að hér sé um eignaupptöku að ræða. En hver hefði trúað því á fráfarandi ríkisstjórn?
4. Líklegt er að sumir njóti einhverra lagfæringa með þessum nýju lögum. Það er í góðu lagi.

Bestu félagskveðjur.
Harald S. Holsvik, formaður stjórnar FaMos.