Jólasýning fyrir yngstu kynslóðina

töfratárið2Í nógu er að snúast hjá Leikfélagi Mosfellssveitar. Viðtökur á leikritinu Mæðrum Íslands fóru fram úr björtustu vonum, Leikgleði námskeiðin eru í fullum gangi og sýningar á nýju jólaleikriti fyrir yngstu kynslóðina eru hafnar.
Leikritið heitir Töfratárið og er eftir Agnesi Wild og í leikstjórn hennar. Töfratárið fjallar um stúlkuna Völu sem þykir fátt skemmtilegra en að leika sér með bangsann sinn. Það er aðfangadagur og móðir Völu sem er læknir þarf að fara í vinnuna. Völu þykir það ósanngjarnt, grætur og bangsi huggar hana. En það sem Vala vissi ekki er að allir bangsar eru gæddir töframætti og þegar barn grætur tárum sem það á alls ekki að gráta, geta bangsar lifnað við.
Töfratárið er fjörug, falleg og fræðandi sýning fyrir börn frá 3 ára aldri og fjölskyldur þeirra. Sýningar verða á sunnudögum til jóla og er hægt að panta miða í síma 566-7788.
Einnig er hægt að fylgjast með leikfélaginu á Facebook, Instagram og Snapchat undir nafninu leikmos.