Innbrotum og þjófnuðum fækkar í Mosfellsbæ

loggan

Nýlega komu forsvarsmenn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á fund bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ. Fundurinn er árlegur og þar er meðal annars farið yfir tölfræðiupplýsingar um þá þjónustu sem lögreglan veitir í sveitarfélaginu.
Innbrotum og þjófnuðum í Mosfellsbæ fækkar á milli ára á meðan meðaltal á höfuð­borgarsvæðinu hækkar. Tilkynningum um ofbeldisbrot og heimilisofbeldi hefur hinsvegar fjölgað talsvert milli ára. Að mati lögreglunnar og starfsmanna Fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar er það ekki endilega vegna fleiri ofbeldisbrota heldur má tengja það átaki lögreglunnar og barnaverndaryfirvalda um breytt verklagi í þeim málum, betri skráningu og almennri vakningu í samfélaginu um að slík mál beri að tilkynna.

Áhyggjur af afbrotum
Í könnun sem lögreglan gerir meðal íbúa kemur í ljós að 94% aðspurðra íbúa í Mosfellsbæ telja sig örugga í sínu hverfi. 62% íbúa segjast hafa haft áhyggjur af því að verða fyrir afbroti á síðasta ári.
Lögreglustöðin á Vínlandsleið í Grafarvogi hefur umsjón með þjónustu í Mosfellsbæ og 33% íbúa hefur haft samband við lögregluna með einhverjum hætti það sem af er ári. Það er lægra hlutfall en á höfuðborgarsvæðinu í heild. Flestir nýta sér samfélagsmiðla eða 71% til að hafa samband.
Lögreglan leggur mikla áherslu á sýnileika og góða þjónustu við íbúa í Mosfellsbæ og hvetur íbúa til að nýta sér allar færar leiðir til að hafa samband við sig sé óskað eftir aðstoð eða þjónustu lögreglunnar.