Íþrótta- og heilsubær Íslands

Ég hef nýhafið störf sem íþrótta- og lýðheilsufulltrúi Mosfellsbæjar. Starfið byggir á grunni sem ljúfmennið Sigurður Guðmundsson reisti, en starfslýsingin er á ýmsan hátt ólík hans. Ég er mjög spenntur fyrir þeim fjölmörgu verkefnum sem fram undan eru, er afar þakklátur fyrir traustið og ætla að gera mitt allra besta til að standa undir því.

Það er mikill áhugi á íþróttum og hreyfingu í bæjarfélaginu og margt í boði fyrir bæjarbúa á öllum aldri á því sviði. En við ætlum að gera enn betur. Mosfellsbær og Afturelding eru til dæmis að vinna þarfagreiningu fyrir nýja þjónustu- og aðkomubyggingu við íþróttamiðstöðina að Varmá. Fjölmargir kynningarfundir hafa verið haldnir og viðtöl tekin við á þriðja tug hagaðila. Að auki er nú opin rafræn könnun á vegum Mosfellsbæjar þannig að allir bæjarbúar geta komið skoðunum sínum og hugmyndum varðandi bygginguna á framfæri.

Ég hef undanfarna daga mikið hugsað um eitt af bláu svæðunum (Blue Zones) í heiminum og borið það saman við okkur í Mosfellsbæ. Loma Linda (fallega hæðin) er rúmlega 20 þúsund manna bæjarfélag í Kaliforníu. Við fjölskyldan dvöldum í þar í mánuð þegar við ferðuðumst um bláu svæðin fyrir akkúrat fimm árum að kynna okkur og læra um samspil langlífis og góðrar heilsu.

Það sem stuðlar fyrst og fremst, að mínu mati, að áberandi góðri heilsu íbúa Loma Linda er hugarfarið. Íbúar eru mjög meðvitaðir að búa í heilsubæ og nota það sem hvatningu til að stunda heilsusamlegt líferni. Ég sé Mosfellsbæ fyrir mér sem íþrótta– og heilsubæ Íslands. Við höfum allt sem til þarf – umhverfið, grunnaðstöðuna og það sem mikilvægast er, drífandi og jákvætt fólk sem vill vinna saman að sameiginlegum markmiðum. Hugarfarið er mikilvægast. Hugsum og tölum jákvætt, það hvetur okkur mest til dáða.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 7. mars 2024