Fjölgun stöðugilda á bæjarskrifstofunum

Anna Sigríður Guðnadóttir

Hún er lífseig umræðan um fjölgun starfsmanna á bæjarskrifstofunum í kjölfar stjórnkerfisbreytinga og auglýsingar sjö stöðugilda stjórnenda sumarið 2023.
Einhverjir virðast telja sig hafa af því hagsmuni að þvæla þá umræðu. Þess vegna er ástæða til að fara aftur yfir þær breytingar, ráðningarnar umtöluðu og forsendur þeirra.

Forsendur breytinga
Forsendur stjórnkerfisbreytinganna voru annars vegar málefnasamningur meirihlutans en í honum kemur eftirfarandi fram: „Stjórnkerfið og skipulag þess endurspegli umfang þeirrar þjónustu sem því er ætlað að veita. Þannig verði sjónum beint að því efla og auka þann mannauð sem býr í starfsfólki bæjarins í samræmi við aukinn íbúafjölda.“
Hins vegar tók bæjarstjórn ákvörðun um að láta gera stjórnsýslu- og rekstrarúttekt enda langt um liðið frá því starfsemin var síðast tekin út og skoðuð og bæjarbúum fjölgað margfalt.

Eftir stjórnkerfisbreytingar
Við stjórnkerfisbreytingarnar sumarið 2023 var bætt við einu sviði í stjórnkerfi bæjarins, sviði menningar, íþrótta og lýðheilsu. Ástæðan var m.a. áhersla meirihluta B, S og C lista á lýðheilsumál og vilji til að efla menningarlíf í bæjarfélaginu. Með þessari breytingu fjölgaði sviðsstjórum um einn.
Sumarið 2023 var ráðið í störf skrifstofustjóra umbóta og þróunar, sviðsstjóra mannauðs og starfsumhverfis, leiðtoga leikskóla og grunnskóla, umhverfis, Mosfellsveitna og leiðtoga fötlunarmála. Samtímis var starf sviðsstjóra þjónustu- og samskiptasviðs lagt niður sem og stöðugildi framkvæmdastjóra Skálatúns.
Fyrrum stjórnendur Mosfellsveitna, grunnskóla-, leikskóla-, umhverfis- og mannauðsmála ásamt sviðsstjóra fræðslu-og frístundasviðs höfðu ýmist horfið til annarra starfa eða hætt vegna aldurs. Í stað þess að ráða einstaka stjórnendur þegar stöður losnuðu var tekin ákvörðun um að fresta ráðningum þar til eftir stjórnsýsluúttekt og stjórnkerfisbreytingar.

Aukin verkefni
Starfsmönnum á velferðarsviði hefur hins vegar fjölgað frá því að núverandi meirihluti tók við vegna samninga við ríkið um verkefni eins og innleiðingu farsældar, samning um samræmda móttöku og nú síðast verkefnið Gott að eldast. Þau stöðugildi eru að fullu fjármögnuð með samningum við ríkið.
Ráðið var í nýtt stöðugildi viðburða­stjóra Hlégarðs og á fræðslu- og frístundasviði var bætt við stöðugildi vegna barna með sértækar þarfir í grunnskólum. Einnig var ákveðið að ráða skólasálfræðing og talmeinafræðing inn í skólaþjónustuna sem áður höfðu starfað sem verktakar og því ekki um útgjaldaaukningu að ræða.
Haustið 2022 var samþykkt í fjárhags­áætlun að styrkja skipulagssviðið sérstaklega enda sögulega stór verkefni í gangi. Fékk skipulagsfulltrúi til liðs við sig verkefnisstjóra auk þess sem lögfræðiþjónustan var styrkt. Hvort tveggja löngu tímabært með auknum umsvifum.
Síðan var samþykkt í fjárhagsáætlun að ráða sérstakan mannauðsráðgjafa fyrir leik- og grunnskóla og er sú auglýsing í gangi núna. Viðkomandi mun að mestu leyti starfa úti í skólunum.
Mosfellsbær tók nýlega að sér það umfangsmikla verkefni á sviði fötlunarmála að reka Skálatún. Þeirri breytingu fylgdu rúmlega 100 starfsmenn í 70 stöðugildum. Í öllum samanburði um fjölgun starfsmanna bæjarins þarf að hafa þessa breytu í huga.

Áfram gakk
Það er hollt að fara með reglubundnum hætti í gegnum skipulag og stjórnkerfi bæjarfélags eins og Mosfellsbæjar og ef ekki næst árangur með núverandi skipulagi, þá hikar meirihlutinn ekki við að endurskoða það enn frekar.
Mosfellsbær býr að miklum mannauði á öllum sviðum sinnar starfsemi. Þar starfar gamalreynt starfsfólk ásamt öflugum nýliðum sem saman efla og auðga starfsemi sveitarfélagsins og munu, undir forystu okkar frábæra bæjarstjóra, halda áfram að þjónusta bæjarbúa með fyllstu hagkvæmni að leiðarljósi.

Anna Sigríður Guðnadóttir,
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar