Íslensk knattspyrna á upp­leið en ekki í Mosfellsbæ

Hugi Sævarsson

Hugi Sævarsson

Það er búið að vera ótrúlega gaman að fylgjast með uppganginum í íslenskum fótbolta síðustu árin.
Karla- og kvennalandsliðin okkar náð frábærum árangri, og eftirspurn atvinnuliða erlendis eftir íslenskum starfskröftum aldrei verið meiri. Heimsbyggðin horfir undrunaraugum á og sérfræðingar eru sendir til smáríkisins til að reyna að greina undrið, finna formúluna. Til að skýra árangurinn þá hafa ýmsir þættir verið nefndir. Má þar nefna aukna fagmennsku, jákvætt hugarfar, vinnusemi að ógleymdri hinni svokölluðu íslensku ,,geðveiki“ og hjarta. Ómetanleg landkynning.
Stór partur af velgengninni og óumdeildur er bætt aðstaða til knattspyrnuiðkunar með tilkomu fjölnota íþróttahúsa (oft kallað yfirbyggð knattspyrnuhús þó notkunin takmarkist ekki við knattspyrnu).
Stærri og reyndar mun minni bæjarfélög en Mosfellsbær hafa byggt upp slíka aðstöðu og mörg þeirra fyrir margt löngu síðan. Hins vegar hefur nákvæmlega ekkert verið gert í þessum málum hér og bærinn dregist enn frekar aftur úr.

Í haust voru kynnt drög um að byggja ætti loksins fjölnotahús. Áformin eru því miður mikil vonbrigði og sýna enn og aftur ákveðið metnaðar- og þekkingarleysi á málaflokknum. Framkvæmdin sem kynnt hefur verið nær ekki lengra en svo að byggja á tæplega hálft hús þegar þörfin er að sjálfsögðu yfirbyggður völlur í fullri stærð, til viðbótar við núverandi aðstöðu. Fjöldi íbúa í bænum hefur aukist hratt undanfarin ár og ljóst að áframhald verður á. Íbúafjöldinn að vaxa hlutfallslega mun hraðar en í nágrannasveitafélögunum. Það verður því ekki langt þangað til að þörfin verður þrír vellir.

Knattspyrnufólk í Mosfellsbæ hefur búið við mjög skerta aðstöðu um langt skeið. Engan skal því undra að árangurinn hafi látið á sér standa. Flokkar sem telja fleiri tugi iðkenda þurft að bíta í það súra epli að æfa á hálfum velli, oft við erfiðar veður- og vallaraðstæður. Krakkar og fullorðnir sem eiga að vera að æfa 11 manna bolta eru ennþá í umhverfi smávalla („minibolta“). Golfarar yrðu varla sáttir við að geta bara æft og keppt í mínigolfi eða pútti, handboltinn að spila bara fjórir á móti fjórum, blakarar á hálfum velli og svona mætti lengi telja. Augljóst að gæði æfinga, þrátt fyrir góðan metnað og vilja, verða ekki nærri eins góð. Iðkendur dragast aftur úr eða hætta.
Vinsælasta íþróttin á ekki að sitja eftir, ekki frekar en aðrar greinar. Við verðum ekki samkeppnishæf fyrr en byggt hefur verið alvöru yfirbyggt fjölnota íþróttahús. Hús sem getur gagnast öðrum greinum eins og frjálsum íþróttum og halda má mót og kappleiki í. Einnig er brýn þörf á félags- og búningaaðstöðu. Núverandi aðstaða er alls ekki boðleg í bæ sem við viljum kalla heilsueflandi. Verum því ekki hálfdrættingar, hugsum til nútíðar og framtíðar.
Ágætu ákvörðunaraðilar, setjið góðan metnað í málið sem allra fyrst. Tökum rétt skref upp á við.

Með góðri og bjartsýnni íþróttakveðju,
Hugi Sævarsson
framkvæmdastjóri