Finnum hið fullkomna jólatré í skóginum

Björn Traustason

Björn Traustason

Jólatrjáasala Skógræktarfélags Mosfellsbæjar hefst laugardaginn 9. desember í Hamrahlíð við Vesturlandsveg. Það verður mikið um dýrðir í skóginum þennan dag.
Bæjarstjórinn mun höggva fyrsta jólatréð, jólasveinar munu koma og skemmta börnunum og að sjálfsögðu verður hægt að ylja sér með heitu kakói og kaffi. Við hvetjum alla til að láta sjá sig og annaðhvort höggva sitt eigið jólatré eða velja tré úr rjóðrinu okkar.
Þeir sem ákveða að ganga um skóginn eru yfirleitt að leita að hinu fullkomna jólatré. Það er nefnilega þannig að jólatréð sem maður fellir sjálfur er yfirleitt hið fullkomna tré vegna stemningarinnar við að arka um skóginn og finna að lokum tréð sem mun skreyta stofuna yfir jólin.
Þá er margþættur ávinningur af því að kaupa íslenskt jólatré. Í fyrsta lagi er kolefnisfótspor íslenskra jólatrjáa margfalt minna en með innfluttum erlendum jólatrjám. Ekki þarf að flytja jólatrén til landsins með tilheyrandi eldsneytisnotkun, auk þess sem íslensk jólatré eru ekki úðuð með skordýraeitri sem notað er við ræktun þeirra innfluttu jólatrjáa sem eru á markaðnum í dag. Jafnframt sparast gjaldeyrir við kaup á íslenskum jólatrjám og á sama tíma er verið að styðja mikilvægt starf þeirra sem koma að ræktun jólatrjáa á Íslandi.
Kaup á íslenskum jólatrjám styðja því undir að stækka skógarauðlind okkar sem nýtist til útvistar, framleiðslu á viðarafurðum og svo auðvitað til að skapa fleiri fullkomin jólatré.
Hvetjum við alla til að heimsækja okkur í Hamrahlíðina, við verðum með opið á virkum dögum frá kl. 12-18 og milli 10 og 16 um helgar.
Sjáumst í Hamrahlíð!

Björn Traustason