Gott fólk

Heilsumolar_Gaua_30nov

Það er fátt eins gott fyrir heilsuna og að vera í kringum gott fólk. Fólk sem er ánægt með lífið og hefur gaman af því sem það er að gera. Fólk sem hefur jákvæð og hressandi áhrif á mann. Fær mann til að brosa, hugsa, gera skemmtilega hluti. Við þekkjum öll svona fólk og núna þegar jólamánuðurinn er að keyrast í gang er upplagt að umgangast þetta fólk eins mikið og við getum. Leyfa því að hafa jákvæð áhrif á okkur þannig að við getum haft jákvæð áhrif á aðra. Það er gott fyrir alla.

Ég hitti einmitt gott fólk í dag sem ég hef ekki hitt lengi. Það var virkilega gaman og hressandi á allan hátt og gaf mér bæði hugmyndir og löngun til að hitta þetta fólk oftar. Sem ég ætla að gera. Maður þarf að passa upp á þetta góða í lífinu, vera þakklátur fyrir það sem maður hefur og bæði ná sér í góða orku og gefa frá sér góða orku. Ég trúi því að við getum öll breytt heiminum örlítið, hvert okkar, með því að hugsa vel um sjálf okkur og aðra. Haft þannig jákvæð og smitandi áhrif út í heiminn. Við þurfum ekki að bíða eftir því að aðrir geri eitthvað fyrir mann. Ríkið, bærinn, vinnustaðurinn, félagið og eða aðrir. Við tökum auðvitað fagnandi á móti jákvæðum breytingum að ofan eða utan en getum haft miklu meiri áhrif sjálf en við gerum okkur grein fyrir. Akkúrat eins og þetta góða fólk sem ég hitti í dag. Þetta fólk sýnir frumkvæði, kemur hugmyndum í framkvæmd og nýtir þau tækifæri sem lífið býður upp á alla daga. Er þannig góðar fyrirmyndir fyrir okkur hin.

Hvet að lokum alla til að hreyfa sig mikið og vel í desember. Gera eitthvað líkamlega krefjandi alla daga!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 30. nóvember 2017