Hvað er vinstri og hvað er grænt?
Um þessar mundir er leitun að stjórnmálaflokki sem á jafnt lítið erindi inn í stjórnmál og Vinstri græn. Hvort sem litið er til þátttöku þeirra í ríkisstjórn eða sveitarstjórn.
Flokkur sem málar sig upp í sterkum litum, en á bak við þá er ekkert vinstri og ekkert grænt lengur. Þetta sést hvað gleggst í stuðningi VG við spillingarflokkana í ríkistjórn og nú síðast í tengslum við söluna á Íslandsbanka. Hann leggur fátt til og er aðgerðalítill í að koma stefnumálum sínum sem hann var stofnaður í kringum á framfæri. Passar bara upp á að stjórnin hangi.
Sextán ár
Þannig hefur það líka verið um enn lengri tíma hér í Mosfellsbæ eða í 16 ár. Eftir allan þann tíma sem flokkurinn hefur verið í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í Mosfellsbæ stendur lítið eftir nema lítið notað fuglaskoðunarhús við Leiruvoginn. Þvílíkt afrek!
Í hverju málinu á fætur öðru hefur fulltrúi VG stutt Sjálfstæðisflokkinn jafnvel þótt það hafi gengið gegn yfirlýstum meginmarkmiðum flokksins. Rétt eins og við höfum séð hjá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sem hefur ekki þótt ástæða til að taka á spillingarmálum ráðherra ríkistjórnar sinnar og brotum þeirra á jafnréttislögum svo eitthvað sé nefnt.
Lokaorð bæjarfulltrúa VG í oddvitakappræðum á RÚV voru lýsandi fyrir þetta erindisleysi. Sagan endurtók sig síðan á fundi í Hlégarði sem boðað var til af félagi aldraðra í bænum. Enginn metnaður um úrbætur eða framtíðarsýn.
Sama var uppi á teningnum í umræðum á síðasta bæjarstjórnarfundi þar sem bæjarfulltrúinn tók þátt í að þvinga í gegn með íhaldinu áform um Blikastaðaland með samningi við banka sem ekki var unninn af kjörnum fulltrúum heldur embættismönnum í mikilli leynd.
Kjörnir fulltrúar fengu viku til að skoða málið og máttu ekki ráðfæra sig við neina aðra, þar sem málið var flokkað sem trúnaðarmál. Samningur sem varðar tugi milljarða króna.
Stóra og nánast eina áhyggjuefni bæjarfulltrúa VG var hvort einhver starfsemi yrði í gamla Blikastaðabænum því jú þar hefði aldrei fokið hey. Með fullri virðingu fyrir þeim bæ, þvílíkt erindi inn í pólitík!
Fólk með framtíðarsýn
Í aðdraganda þessara kosninga hefur orðið deginum ljósara að atkvæði greitt Vinstri grænum í Mosfellsbæ er atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum, enn einu sinni.
Gefum núverandi meirihluta frí og gefum fólki með framtíðarsýn og metnað fyrir góðri þjónustu við íbúa Mosfellsbæjar tækifæri. Tækifæri til að styðja betur við skólana okkar, til að hlúa betur að öldruðum og fötluðum, til að fjölga fjölbreyttum búsetukostum, til að skipuleggja bæinn í samstarfi við íbúa og til að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum.
Ef þú kjósandi góður ert til í þetta þá er það góður kostur að setja X við S á kjördag.
Ólafur Ingi Óskarsson, skipar 2. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar
Sunna Arnardóttir, skipar 6. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar