Hvers vegna eru fjármálafyrirtækin í forgangi?

Sveinn Óskar Sigurðsson

Tenging við börnin okkar á því aldursskeiði sem þau þurfa mest á okkur að halda er mikilvæg. Þegar dætur okkar hjóna voru kornungar starfaði með mér kona, alveg hreint einstök kona sem er fóstra. Hún sagði við mig, er hún sá mig með dætrunum eitt sinn, að við þyrftum að nýta tímann okkar vel með þeim því þessi tími yrði fljótur að líða. Nú er eldri dóttirin erlendis í námi og sú yngri á leiðinni á eftir systur sinni. Svona týnist tíminn en minningin lifir.
Já, þetta tók ekki langan tíma sé litið aftur. En búum við öll við það tækifæri sem ég gat gripið, þ.e. að vera til staðar heima sem faðir í hvert sinn sem þær komu heim úr skólanum? Nei, við búum ekki öll við það. Margir vinna baki brotnu og bæði hjón oft að heiman til að ná endum saman. Það dugir jafnvel ekki alltaf til. Einstæðir foreldrar berjast í bökkum og í sama mund hækkar húsnæðiskostnaður sem aldrei fyrr, skattar og aðrar álögur.
Hvers vegna hefur sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu ekki tekist að svara þessu með úthlutun lóða svo tryggja megi nægt framboð til að halda megi niðri verðlagi á húsnæði? Eftir hrun fjármálakerfisins 2008 hurfu eignir fólks og fyrirtæki inn í nýja banka og lóðir fyrirtækja eins og ÍAV sem missti Blikastaðaland í hendur banka. Bankar fá nánast óendanlegt ráðrúm að halda þessu í eignasafni sínu og í dótturfélögum og sjóðum. Það er í raun niðurgreiðsla frá ríkinu í formi laga til handa fjármálafyrirtækjum. Víða erlendis er bönkum gert að losa þetta út á markaðinn innan árs eða tveggja ára. Með því gæti komið leiðrétting rétt eins og gerist þar sem markaðir eru raunverulega virkir og ekki stjórnað af fjármálafyrirtækjum eins og á Íslandi. Þetta þýðir að íslenska húsnæðismarkaðnum er stýrt.
Þetta er kostnaður almennings og samfélaga, eins og sveitarfélaga, sem í raun og sann er færður í bækur banka og oftar en ekki þar á tekju- og eignahliðina. Mosfellsbær hefði hugsanlega getað keypt Blikastaði á sínum tíma og verið nú að úthluta hagkvæmum lóðum á markaðinn en ekki Arion banki. Svo eiga sveitarfélögin að sitja eftir með alla þjónustuna og kröfur um bættan aðbúnað fyrir aldraða, börn og barnafólk.
Í vikunni var ritað undir byggingu 44 nýrra hjúkrunarrýma að Hömrum í Mosfellsbæ. Þau 74 rými sem þá verða til staðar nægja ekki nema fyrir komandi kjörtímabil því árgangarnir, sem eru að koma inn í hópinn 80 ára og eldri, eru um eða yfir 50 til 65 einstaklingar árlega. Þá er aðeins teknir þeir með sem hér búa í dag. Því á það að vera fyrsta verk nýrrar bæjarstjórnar að stefna að enn frekari uppbyggingu hjúkrunarrýma og stórbæta stuðningsþjónustu bæjarins sem er afar döpur í dag.
Samhliða þessu verður að stórbæta þjónustu skólaskrifstofu bæjarins svo bæta megi í sálargæslu, geðrækt og stuðning við börn með fjölþættan vanda. Biðraðir fyrir börn í íþróttum, í greiningar hjá fagfólki er glötuð ævi rétt eins og hjá okkur sem erum eldri.

Sveinn Óskar Sigurðsson
Bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ fyrir Miðflokkinn og oddviti fyrir komandi sveitastjórnarkosningar