Mannvænt eða bílvænt skipulag?
Í huga mínum er Mosfellsbær grænn og nútímalegur bær. Hér er góður aðgangur að óspilltri náttúru og grænum svæðum, byggðin fjölbreytt og í góðu samræmi við umhverfi sitt.
Þegar ég var í fæðingarorlofi með litlu stúlkuna mína var ég duglegur að ganga með hana í kerrunni sinni. Ég held að ég hafi á þessum sumarmánuðum gengið nokkurn veginn hvern einasta göngustíg bæjarins þrisvar, og fannst mér það nær alltaf jafn skemmtilegt og endurnærandi – með einni undantekningu. Það var ef þörf var á að gera krók á göngutúrnum til að skjótast í Bónus eða Krónuna. Umferðin, skarkalinn og breiðar göturnar fældu frá eftir rólega göngu upp með Varmánni eða niður í Leiruvog.
Sé horft á loftmynd af miðbæ Mosfellsbæjar kemur ein staðreynd í hug ofar öðrum. Það er að húsin eru smá og bílastæðin ógnarstór. Þegar við skipuleggjum umhverfi okkar og byggð er það augljóslega gert eftir þörfum mannfólksins sem þar býr. Þær þarfir eru þó síbreytilegar og þarf skipulagsvaldið að vera sveigjanlegt eftir því.
Þegar umhverfið í miðbæ Mosfellsbæjar er skoðað með það að sjónarmiði sjást glögglega þarfir fortíðarinnar.
Mosfellsbær er bæjarfélag í örum vexti og eftirsótt. Þessi sístækkandi hópur bæjarbúa hefur fjölbreyttari þarfir og væntingar en áður og eðlilegt að bæjarumhverfið breytist í takt við það.
Þótt einkabíllinn sé og verði áfram þarfur þjónn í þeim raunveruleika sem við búum við hér á landi þarf að gera öðrum samgöngumátum og áherslum jafnhátt undir höfði.
Við í Vinstri Grænum höfum þegar sýnt það í verki með stuðningi við Borgarlínu og uppbyggingu fjölþátta samgöngustíga hér í bænum. En við getum gengið enn lengra, sér í lagi í nærumhverfi okkar.
Breiðgata getur hæglega orðið að göngugötu, bílastæði að torgi eða almenningsgarði þar sem börn geta leikið og foreldrar setið og sötrað kaffi. Þannig gætum við svarað kalli nútímans um vistvænni samgöngur og lífshætti, en einnig gagnrýni þeirra sem kalla Mosfellsbæ svefnbæ.
Ég sé fyrir mér að hér muni rísa lífvænlegri, fjölbreyttari og grænni miðbær sem fólk mun vilja heimsækja og jafnvel eyða tíma í – hvort sem það komi gangandi, hjólandi, í strætó eða á bílnum. Það er bara að þora að taka af skarið.
Bjartur Steingrímsson
Höfundur skipar 3. sæti V-listans í kosningunum 14. maí.