Hundasnyrtistofan Dillirófa opnar í Kjarna

Valborg Óðinsdóttir og Anna Dís Arnarsdóttir á hundasnyrtistofunni.

Í desember síðastliðnum opnaði í Kjarnanum hundasnyrtistofan Dillirófa.
Það eru þær Anna Dís Arnarsdóttir og Valborg Óðinsdóttir sem eiga og reka stofuna. Þær eru báðar með áralanga reynslu og góða menntun sem hundasnyrtar.
„Ég hef starfað sem hundsnyrtir síðan 2008, ég hef sótt ótal námskeið og fór svo til Ítalíu að læra og hef verið duglega að sækja mér menntun bæði hérlendis og erlendis,“ segir Valborg sem sérhæfir sig meðal annars í púðluklippingum.

Allir hundar velkomnir á staðinn
Anna Dís er tölvunarfræðingur að mennt og hefur lært hundasnyrtinn hérlendis. „Ég starfaði lengi hjá Kátum hvuttum þar sem ég hlaut mikla reynslu og þjálfum. Ég hef verið lengi í hundunum og þá sértaklega að sýna mismunandi tegundir og hef með árunum lært mikið um feldumhirðu hunda,“ segir Anna Dís.
„Hingað eru allir hundar velkomnir, það er náttúrlega þannig að hver hundategund þarf mismunandi umhirðu en við bjóðum upp á alla almenna snyrtiþjónustu fyrir hunda. Við böðum og blásum, rökum og reytum, greiðum úr flækjum og gerum það sem þarf að gera og klóaklipping er alltaf innifalin.“

Góðar viðtökur í hundavænu samfélagi
Þær stöllur hafa innréttað og útbúið frábæra aðstöðu til hvers kyns snyrtinga fyrir alla tegundir af hundum. Auk þess eru þær með gott úrval af hágæða vörum fyrir feldumhirðu, sjampó, næringu, sprey og bursta.
„Við erum rosalega ánægðar hér, við höfum fengið góðar viðtökur og teljum að þessi þjónusta sé góð viðbót við annars hundavænt bæjarfélag. Við hlökkum mikið til að taka á móti Mosfellingum og nærsveitungum.“