Endurbætur á Hlégarði að hefjast

Horft úr móttöku í innri og ytri sal.

Umhverfissvið Mosfellsbæjar hefur á grundvelli heimildar bæjarráðs boðið út framkvæmdir við fyrsta áfanga endurbóta á innra rými Hlégarðs.
Verkefnið felur í sér heildstæða endurgerð fyrstu hæðar hússins. Hönnuðir skiptu framkvæmdum í fyrsta áfanga með eftirfarandi hætti: Uppbygging og endurnýjun stoðrýma svo sem salerna, bars og undirbúning burðavirks áður en gólf verða endurgerð á fyrstu hæð og salir innréttaðir að nýju í samræmi við fyrirliggjandi teikningar.

Gætt að hönnun Gísla Halldórssonar
Menningar- og nýsköpunarnefnd fól starfsmönnum sveitarfélagsins í maí 2019 að velja arkitektastofu til að vinna tillögur að breytingum á innra rými Hlégarðs.
Leitað var til arkitektastofunnar Yrki arkitektar sem hafði áður unnið tillögur að breytingum á innra rými Hlégarðs. Húsið er hannað af Gísla Halldórssyni arkitekt og var arkitektum meðal annars falið að gæta sérstaklega að heildaryfirbragði hússins í samhengi við höfundareinkenni byggingarinnar og sögu. Samhliða yrði tryggt að breytingar yrðu til að auka notagildi hússins.

Menningarstefna – skapa rými
Í menningarstefnu Mosfellsbæjar er fyrsti áhersluflokkurinn sá að Mosfellsbær skapi rými og aðstöðu til menningarstarfsemi.
Þær tvær aðgerðir sem voru fremstar í forgangsröðuninni eru annars vegar að Hlégarður verði miðstöð menningarlífs í Mosfellsbæ og hins vegar að lokið verði við að útfæra áætlun um breytingar á Hlégarði, hanna þær og skipta þeim upp í áfanga til næstu fjögurra ára. Þessar tvær aðgerðir eru þannig komnar á góðan rekspöl.