Golfið orðið að heilsársíþrótt

Golfklúbbur Mosfellsbæjar tók nýverið í notkun nýja og glæsilega inniaðstöðu á neðri hæðinni í íþróttamiðstöðinni Kletti.
Það er óhætt að segja að með því hafi aðstaða kylfinga í Golfklúbbi Mosfellsbæjar orðið allt önnur og býður klúbburinn nú upp á frábæra aðstöðu til golfiðkunar allt árið um kring.

Í íþróttamiðstöðinni er virkilega góð aðstaða til þess að æfa golf og er þar m.a.
– Tveir fullkomnir Trackman golfhermar
– 200 fermetra púttflöt
– Aðstaða til þess að slá í net
– Fyrirlestrarsalur fyrir iðkendur og þjálfara
Leitast er við að bjóða öðrum hópum aðstöðu í húsinu til almennrar útivistar og hreyfingar. Svæðið er tengt inn í stígakerfi Mosfellsbæjar og því skapast mörg skemmtileg tækifæri fyrir tengingar og fleiri íþróttir/útivist í hjarta Mosfellsbæjar.

Ótrúlega góð áhrif á starfið
„Það er óhætt að segja að þessa nýja aðstaða hafi strax haft alveg ótrúlega góð áhrif á starf Golfklúbbsins,“ segir Ágúst Jensson framkvæmdastjóri GM. „Það er stórt stökk að fara úr því að slá í net í vélaskemmu klúbbsins í eins glæsilega aðstöðu og raun ber vitni. Okkar krakkar og afrekskylfingar hafa svo sannarlega notið góðs af þessari aðstöðu og eyða þau miklum tíma þar sem er virkilega ánægjulegt.
Það hefur orðið talsverð aukning á iðkendum hjá okkur í GM, iðkendafjöldinn tók mikinn kipp í sumar og er virkilega ánægjulegt að sjá hversu margir eru núna að æfa golf yfir vetrartímann einnig. Þar spilar okkar glæsilega aðstaða ansi stórt hlutverk.
Kylfingar í GM hafa einnig tekið þessari bættu aðstöðu fagnandi og nýta hana vel hvort sem það er til þess að koma í golfhermana okkar sem eru þétt bókaðir alla daga eða til þess að æfa og viðhalda golfsveiflunni.

Sprenging í golfinu
Það er alveg ljóst að sú aðstaða sem GM hefur upp á að bjóða í dag mun efla starf klúbbsins verulega. Golf í Mosfellsbæ er nú orðið að heilsársíþrótt.
Mikil aukning hefur orðið í golfinu undanfarin ár og var síðasta ár alveg einstakt og það má í raun segja að það hafi orðið sprenging í golfinu. Golf er frábær íþrótt fyrir alla fjölskylduna og hvetjum við ykkur Mosfellingar góðir að koma við hjá okkur og prófa þessa frábæru íþrótt,“ segir Ágúst.
Allar upplýsingar um GM má finna á heimasíðu klúbbsins, www.golfmos.is