Hótel Laxnes 10 ára
Hótel Laxnes var formlega opnað í september 2008 að viðstöddu fjölmenni.
Á hótelinu eru 26 herbergi við allra hæfi, þrjár svítur, herbergi með sérinngangi og eldunaraðstöðu auk tveggja stúdíóíbúða fyrir fatlaða á fyrstu hæð.
„Fyrsta skóflustungan var tekin árið 2004 og tók fjögur ár að byggja hótelið, einn nagla í einu,“ segir Albert Rútsson hóteleigandi.
„Þegar ég keypti Áslák á sínum tíma sá ég mikil tækifæri í lóðinni hér í kring. Fólk hélt auðvitað að ég væri brjálaður.
Fyrst leigði ég skólakrökkum og öðrum stúdíóíbúðinar á neðri hæðinni en svo kom sprengingin í ferðamannaiðnaðnum. Frá þeim tíma höfum við vaxið ört frá ári til árs. Tíminn hefur verið fljótur að líða og hótelið fengið góða dóma. Markaðssetningin fer mikið fram á netinu og hefur gengið vel. Við erum með átta manns í vinnu og svo er Áslákur alltaf opinn til miðnættis.
Hótelið stækki í náinni framtíð
Búið er að teikna stækkun við hótelið og þá myndi herbergjum fjölga um 40. „Ég á von á því að það gerist í náinni framtíð. Um áramótin tekur við nýr hótelstjóri og fjölskyldan mín mun meira koma inn í reksturinn. Ég er auðvitað farinn að eldast en mun þó alltaf fylgist með á hliðarlínunni.
Aðspurður um hvort hótelið væri ekki til sölu svarar Alli að salan á sínum tíma hafi sem betur fer klikkað. Framtíðin sé björt og aldrei hafi fleiri gestir sótt hótelið.
„Við höfum auglýst bæjarfélagið mjög mikið og allt sem það hefur upp á að bjóða. Það er stutt að fara til og frá Reykjavík og margir okkar gesta vilja vera aðeins fyrir utan miðbæinn.
Við fáum t.d. mikið af gestum frá Þýskalandi, Englandi, Ameríku og nú eru Japanir að flykkjast hingað.“
Vegleg gjöf til björgunarsveitarinnar
Í tilefni af 10 ára afmælis hótelsins ákvað Alli að gefa björgunarsveitinni Kyndli 100.000 kr. og 300 eintök af ævisögu sinni sem kom út fyrir skömmu. Það má því segja að gjöfin til Kyndils geti orðið að andvirði einnar milljónar.