Höldum áfram á réttri leið
Í lok nóvember síðastliðins var samþykkt fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar 2018-2021.
Við lestur og greiningu hennar kemur í ljós að fjárhagsstaða bæjarins hefur styrkst verulega á undanförnum árum, skuldir hafa lækkað og tekjur aukast.
Það er mjög ánægjuleg staðreynd og ljóst að meirihluti bæjarstjórnar, undir stjórn Sjálfstæðisflokksins, og starfsmenn bæjarins hafa verið og eru að vinna gott starf í þeim fjölmörgu verkefnum og málaflokkum sem tilheyra rekstri á bæjarfélagi eins og Mosfellsbæ.
Sökum batnandi fjárhagsstöðu er hægt að auka framlög til ýmissa mikilvægra verkefna bæjarins á næsta ári auk þess að létta skattaálögum á bæjarbúa og er það vel.
Ánægja meðal Mosfellinga
Í Mosfellsbæ er gott að búa og sýna kannanir að íbúar Mosfellsbæjar eru ánægðastir með bæinn sinn þegar mælt er viðhorf íbúa til þjónustu í 19 stærstu sveitarfélögum landsins.
Það eru væntanlega margir þættir sem eiga þátt í þessari ánægju íbúa Mosfellsbæjar og mikilvægt fyrir bæjaryfirvöld að halda áfram á sömu braut, hlusta áfram á íbúana og leggja kapp á að auka enn frekar lífsgæði Mosfellinga.
Þessar kannanir vekja athygli og útkoma þeirra á eflaust þátt í því að ungt fjölskyldufólk velur í miklum mæli að flytja í bæinn og er það ánægjuleg þróun.
Ört stækkandi bæjarfélag
Mikil fjölgun bæjarbúa undanfarin misseri og á komandi árum er á sama tíma mjög krefjandi verkefni fyrir bæjaryfirvöld. Mikill og hraður vöxtur á fjölda íbúa kallar á miklar framkvæmdir sem þarf að vinna hratt og vel í að koma í framkvæmd. Hér má nefna skólamál, leikskólamál, íþróttaaðstöðu og umhverfismál, svo eitthvað sé nefnt.
Mosfellsbær er í fararbroddi á landinu sem heilsueflandi bær. Þessi heilsumiðaða stefna bæjaryfirvalda hefur aldrei verið mikilvægari en nú.
Það forvarnarstarf fyrir börn, unglinga og fullorðna sem unnið er í skólum, íþróttafélögum og á fleiri stöðum í bænum er ómetanlegt og oft á tíðum vanmetið.
Þessi málefni eru reyndar ofarlega á forgangslista bæjaryfirvalda eins og kemur fram í fjárhagsáætlun, en betur má ef duga skal.
Það er því, að mínu mati, verkefni næstu missera að bæta enn meira fjármagni í þessa málaflokka, bæta verulega íþróttaaðstöðu í bænum, efla enn frekar aðstöðu, tækjakost o. fl. í skólum og leikskólum bæjarins ásamt fleiri þáttum í grunnþjónustu okkar ört stækkandi bæjarfélags.
Spennandi verkefni framundan
Umhverfismál skipta okkur Mosfellinga mikill máli og þau málefni þurfa að vera í brennidepli nú sem fyrr samfara stækkun bæjarfélagsins.
Samgöngumál eru mjög stór og mikilvægur málaflokkur og ljóst að breytingar á þeim verða miklar á næstu árum með stöðugt aukinni umferð bæði á höfuðborgarsvæðinu sem og innanbæjar í Mosfellsbæ.
Það er því ljóst að bæjaryfirvöld þurfa að leggja mikla áherslu á þau mál eins og stendur til að gera, t.d. með mótun umhverfis- og samgöngustefnu bæjarins.
Fram undan eru mörg spennandi verkefni og miklar framkvæmdir eru á verkefnalista Mosfellsbæjar og því mikilvægt að vel sé haldið á málefnum sveitafélagsins.
Óska eftir stuðningi í 2.-3. sæti
Ég hef ákveðið á að bjóða fram þekkingu mína og reynslu í rekstri, í mannauðsmálum, auk áralangs sjálfboðaliðastarf í íþrótta- og félagsmálum til þjónustu við íbúa Mosfellsbæjar á næsta kjörtímabili.
Ég gef kost á mér í 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ sem fer fram 10. febrúar 2018. Ég sækist þar með eftir að bætast í öflugan hóp bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ, til að vinna með þeim áfram að framförum og bættum lífsgæðum í Mosfellsbæ.
Ég óska Mosfellingum gleðilegra jóla og velgengni í leik og starfi á komandi ári.
Ásgeir Sveinsson,
framkvæmdastjóri hjá Halldóri Jónssyni ehf. og formaður Aftureldingar karla í handbolta.