Fjárhagsáætlun og lýðræðisleg umræða

Anna Sigríður Guðnadóttir

Anna Sigríður Guðnadóttir

Síðasta fjárhagsáætlun þessa kjörtímabils var afgreidd úr bæjarstjórn í byrjun desember. Allar ytri aðstæður Mosfellsbæjar, líkt og annarra sveitarfélaga í landinu, eru almennt hagfelldar og horfur góðar.
Þess sést stað í fjárhagsáætlun bæjarins og útkomuspám ársins 2017. Í fjárhagsáætlun ársins 2018 er að finna ýmis verkefni og framkvæmdir sem eru til hagsbóta fyrir íbúa Mosfellsbæjar, verkefni sem hafa verið rædd á vettvangi kjörinna fulltrúa á kjörtímabilinu og mikið sammæli ríkir um innan bæjarstjórnar.

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram nokkrar tillögur við fyrri umræðu um áætlunina og óskuðu eftir að þær yrðu skoðaðar milli umræðna og áhrif þeirra á fjárhagsáætlun reiknuð út. Meðal tillagna okkar var hækkun frísundaávísunar í 50 þúsund krónur fyrir hvert barn, lækkun leikskólagjalda og sérstök fjárveiting í að hefja gerð s.k. græns skipulags fyrir Mosfellsbæ.
Þá var gengið frá því að tillaga okkar um gjaldfrjálsan hafragraut að morgni dags í grunnskólum yrði útfærð sem tilraunaverkefni fyrir afmarkaðan hóp til að sjá hvernig best verði staðið að verkefninu. Þessar tillögur Samfylkingar hlutu jákvæðar undirtektir hjá meirihluta Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks og rötuðu inn í lokaútgáfu fjárhagsáætlunar sem samþykkt var.

Sú niðurstaða ber vott um hverju hægt er að áorka með samtali bæjarfulltrúa, sé viljinn fyrir hendi. Undanfarin ár hefur mikið verið rætt um að taka þyrfti upp ný vinnubrögð í stjórnmálum. Hatrömm átök milli fylkinga spilli framgangi góðra mála og skapi vantraust almennings í garð þess fólks sem gegnir störfum kjörinna fulltrúa og stjórnmálanna almennt. Viljinn til að hlusta og ræða saman skiptir höfuðmáli í breyttum stjórnmálum.

Ólafur Óskarsson

Ólafur Óskarsson

Ágreiningur heldur vissulega áfram um þau atriði sem skilja fólk að í samræmi við skoðanir þeirra og pólitíska lífssýn. En átökin þurfa ekki og eiga ekki að vera á persónulegum eða niðrandi nótum. Þvert á móti á að takast á með málefnalegum rökum og bera virðingu fyrir því að önnur sjónarmið um málefni eiga fullkominn rétt á sér í lýðræðislegri umræðu. Þannig er ágreiningur á hinu pólitíska sviði í raun grunnurinn að því lýðræðislega skipulagi sem við búum við.

Lítið vitum við um hvað framtíðin ber í skauti sér en þó er vitað að sveitarstjórnarkosningar verða haldnar í lok maí 2018. Við munum halda áfram að vinna okkar störf innan bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þannig að Samfylkingin geti gengið hnarreist til þeirra kosninga.
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar senda bæjarbúum öllum bestu óskir um gleðilega jólahátíð, farsæld og frið á nýju ári.

Anna Sigríður Guðnadóttir
Ólafur Ingi Óskarsson