Höfum sýnt ábyrgð og staðfestu í störfum okkar

oddvitar_mosfellingur_annasigríður

Kjósendur í Mosfellsbæ geta valið á milli átta framboða í sveitarstjórnarkosningunum laugardaginn 26. maí. Í nýjasta tölublaði Mosfellings sitja oddvitar framboðanna fyrir svörum. Hér er á ferðinni oddviti Samfylkingarinnar.

Nafn:
Anna Sigríður Guðnadóttir.

Aldur:
58 ára.

Gælunafn:
Kölluð Anna Sigga.

Starf:
Verkefnastjóri á Heilbrigðisvísindabókasafni LSH og HÍ.

Fjölskylduhagir:
Gift Gylfa Dýrmundssyni og eigum við 4 uppkomin börn. Von á fjölgun, ekki ég samt 🙂

Hvar býrðu?
Í Barrholti.

Hvað hefur þú búið lengi í Mosó?
19 ár.

Hvað áttu marga vini á Facebook?
694.

Um hvað snúast kosningarnar 2018?
Þær snúast um áherslu á skólastarf og framtíðarsýn í skólamálum, betri þjónustu við ungbarnafjölskyldur, opnari og gegnsærri stjórnsýslu, lýðræðislegt samráð, félagslega samhjálp á grunni virðingar og mannréttinda. Þær snúast um að sjónarmið jafnaðarstefnunnar fái aukið vægi við stjórn bæjarins.

Hver er merkasti Mosfellingurinn?
Halldór Laxness.

Hvernig er kynjahlutfall og aldursdreifing á listanum ykkar?
Konur eru 10 og karlar 8. Elstur er Andrés, 68 ára og yngst er Andrea, að verða tvítug

Hefur þú komist í kast við lögin?
Já. Braut stöðvunarskyldu og var staðin að verki.

Er pólitík skemmtileg?
Já, langoftast, því viðfangsefnin eru svo margvísleg og svo nálægt okkur. Snerta nánasta umhverfi og þjónustu fyrir bæjarbúa.

Uppáhaldsviðburður í Mosó?
Bókmenntakvöld bókasafnsins fyrir jólin.

Hvað drekkur þú marga kaffibolla á dag?
Ætli þeir séu ekki svona 5-6 á virkum dögum en 2-3 um helgar.

Fallegasti staður í Mosfellsbæ?
Hm … erfitt! Núna er það Blikastaðanes.

Besti matur í Mosó? Heima hjá mér 🙂

Eitthvað sem fólk veit ekki um þig?
Hekla af miklum móð.

Hverja tækir þú með þér á eyðieyju?
Ég tæki með mér sagnaþul, smið, veiðimann og verkfræðing. Ég sæi um að rækta grænmeti og að elda.

Hvað finnst þér vanta í Mosó?
Fjölbreyttari matsölustaði og verslanir.

Síðasta SMS sem þú fékkst?
Takk 🙂 frá mágkonu dóttur minnar.

Hvað er markmiðið að ná mörgum inn í bæjarstjórn?
Langtímamarkmiðið er 6 fulltrúar, skammtímamarkmiðið er 3 🙂

Með hverjum hugnast þér að starfa eftir kosningar?
Með þeim sem við náum mestri samstöðu með um þau málefni sem við leggjum áherslu á.

Spilar árangur flokksins á landsvísu rullu í Mosó?
Já, ég hugsa að landsmálin geti haft áhrif að einhverju marki.

Af hverju ætti fólk að kjósa þinn lista?
Af því að við erum jafnaðarfólk sem vinnum að jöfnuði og jöfnum tækifærum fyrir alla með sjálfbærni og hagsmuni kynslóða framtíðarinnar í huga, félagslegri samhjálp á grunni virðingar og mannréttinda og skiljum engan eftir. Einnig vegna þess að við höfum sýnt ábyrgð og staðfestu í störfum okkar í bæjarstjórn og náð árangri með málefnalegu starfi.

—–

Kynning á framboðslista Samfylkingarinnar – Mikið tilhlökkunarefni að hefja kosningabaráttuna

Samfylkingin í Mosfellsbæ á Facebook