Hestar og menn
Hestamannafélagið Hörður í Mosfellsbæ var stofnað árið 1950. Í bænum okkar er því löng og rík hefð fyrir hestamennsku og umferð ríðandi fólks, þótt vissulega hafi margt tekið breytingum á þessum 70 árum, bæði byggðin og líka hestamennskan sjálf, en hún er nú orðin fjórða stærsta íþróttagreinin innan ÍSÍ.
Hestamennska er margs konar, líkt og aðrar íþróttir, sumir æfa fyrir keppni, aðrir til langferða, enn aðrir stunda hana til þess að njóta útivistar og samveru með hestinum. En það er pláss fyrir alla innan hestamennskunnar, fólk af öllum aldri og stigum samfélagsins sameinast í ást á hestum og hestamennsku. Nærveran við dýrin gefur fólki sérstaka sálarró, hestar eru sannir vinir.
Undanfarið hefur borið á mikilli og háværri umræðu um árekstra á milli hestamanna og annarra vegfarenda sem eru að stunda útivist. Reiðleiðir og aðrir stígar skarast eða liggja hver nærri öðrum, fólk fer inn á stíga sem eru sérmerktir annarri umferð og svo framvegis. Jafnvel hefur fólk slasast þegar hestar hafa brugðist við áreitinu á þann hátt að leggja á flótta, verandi flóttadýr.
En það er alls ekki þannig að við knapar séum farþegar sem eru stanslaust í hættu, alls ekki. Fram fer samspil manns og hests, hesturinn treystir á knapann og að hann leiði og leysi þau verkefni sem báðir standa frammi fyrir. Almennt og yfirleitt gengur þetta allt að óskum og allir njóta sín, hestamenn og aðrir. Eðli hestsins getur þó orðið allri samvinnu yfirsterkara ef flóttaviðbragðið tekur yfir. Stundum nær knapi að vinna traust strax aftur og hesturinn vinnur sig út úr óttanum. Stundum tekst það ekki og þá getur hlotist slys af, jafnvel alvarlegt. Hesturinn er annar hugur og annað hjarta, rökhugsun er ekki til staðar. Þetta er mikilvægt að þekkja sé maður í samskiptum við hesta, eða vegfarandi þar sem hestar og hestamenn eru á ferð.
Íþróttamannvirki okkar hestamanna eru að stærstum hluta reiðvegirnir. Við sjáum að hluta um að leggja þá, sinna viðhaldi og margir þeirra eru alveg sérstaklega byggðir upp fyrir ríðandi umferð. Önnur umferð getur hreinlega valdið skemmdum á þeim. Sérmerktir reiðstígar eru merktir með boðmerki. Boðmerkið sem er hvítur hestur á bláum grunni þýðir að stígurinn er eingöngu ætlaður hestamönnum. Önnur umferð er bönnuð. Svo eru til sameiginlegir stígar þar sem hestamenn geta átt von á annarri umferð og þurfa að sýna sérstaka aðgát eins og aðrir sem þá stíga nota. Kurteisi, skilningur og tillitssemi er lykillinn að því að okkur öllum gangi vel að nýta þessi svæði saman.
Sáttmáli milli hestafólks og annarra vegfarenda um umferðaröryggi var undirritaður um síðustu helgi. Útivistarhópar hafa nú tekið höndum saman um að fræða almenning um það hvernig allir þessir hópar geti deilt saman heilbrigðri og öruggri útiveru. Hægt er að sjá sáttmálann og nánar um hverjir standa að honum á vef Samgöngustofu www.samgongustofa.is/hestarogumferd. Á sama tíma var gefið út fræðslumyndband sem einnig er að finna á vefnum og á heimasíðu hestamannafélagsins Harðar www.hordur.is.
Það er von mín að með víðtæku samtali, fræðslu og gagnkvæmri virðingu takist okkur að njóta útiveru í sátt og samlyndi hvert við annað.
Margrét Dögg Halldórsdóttir
Formaður hestamannafélagsins Harðar