Lifandi málaskrá og dagbók – afdrif málsins

Stefán Ómar Jónsson

Á fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar þann 30. mars sl. var fyrst á dagskránni mál mitt um „Rafrænan aðgang almennings að málaskrá Mosfellsbæjar“.
Málið er tvíþætt, annars vegar að birta með rafrænum hætti málaskrá stjórnsýslu Mosfellsbæjar og hins vegar að birta dagbók bæjarstjóra.
Í 4. tölublaði Mosfellings þann 1. apríl sl. var gerð ýtarleg grein fyrir aðdraganda og tilgangi þess að ég flutti málið en aðal­atriðið er að gera almenningi kleift að fylgjast með þeim málum sem beint er að stjórnsýslu Mosfellsbæjar og að fá innsýn í dagleg verkefni bæjarstjóra.
Til að upplýsa íbúa Mosfellsbæjar um afdrif málsins er skemmst frá því að segja að málinu var, að tillögu minni, vísað til umsagnar þjónustu- og samskiptadeildar Mosfellsbæjar og er niðurstöðu deildarinnar nú beðið, en um sex vikur eru síðan málið var til afgreiðslu í bæjarráði.
Mikið er talað um að gera almenningi kleift að fylgjast með og hafa innsýn í daglega stjórnsýslu hins opinbera. Aðkoma almennings er stundum bundin í lög og reglur eins og t.d. aðkoma að skipulagsmálum og nú aðgangur að málaskrá Stjórnarráðs Íslands, en annað er valfrjálst eins og til að mynda ofangreint mál mitt.
Hvað varðar Mosfellsbæ er í 1. kafla í Lýðræðisstefnu bæjarins, um stjórnsýslu og gegnsæi, meðal annars talað um að íbúar skuli hafi greiðan aðgang að öllum gögnum sveitarfélagsins. Í því ljósi geri ég ráð fyrir því að þjónustu- og samskiptadeild Mosfellsbæjar muni leggja fram tillögur um með hvaða hætti opna má aðgang að málaskrá Mosfellsbæjar og dagbók bæjarstjóra.

Ég færi öllum íbúum og starfsmönnum Mosfellsbæjar óskir um gleðilegt sumar.

Stefán Ómar Jónsson,
bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar.