Heimabær menningarinnar

Una Hildardóttir

Mosfellsbær iðar af menningu. Einhvern veginn höfum við fundið fullkominn stað fyrir sköpunarkraftinn, þar sem þéttbýli og náttúran mætast á jaðri höfuðborgarsvæðisins.
Við höfum stolt fengið að fylgjast með tónlistarfólkinu okkar klifra upp metorðastigann bæði hér heima og erlendis. Ríkt menningarstarf í Mosfellsbæ og öflugur listaskóli hefur alið upp hæfileikaríkt listafólk á sviði tónlistar, ritlistar, myndlistar og svo mætti lengi áfram telja.
Eitt af meginmarkmiðum menningarstefnu Mosfellsbæjar er að stuðla markvisst að því að menningarlíf bæjarins sé fjölbreytt og aðgengilegt fyrir alla hópa samfélagsins, enda mikilvægt að allir eigi kost á að taka þátt í menningarstarfi á eigin forsendum.

Undirstaða öflugs lista- og menningarlífs er menntun á öllum skólastigum og jöfn tækifæri til náms. Í Mosfellsbæ er öflugur listaskóli en aðsókn er mikil og biðlistar langir. Skólagjöld eru há og einhverjir nemendur þurfa að leigja hljóðfæri með tilheyrandi kostnaði.
Listnám er ekki einungis farvegur til þess að beisla sköpunarkraftinn heldur eflir það líka alhliða þroska nemenda. Mér finnst mikilvægt að auka aðgengi nemenda að fjölbreyttu listnámi og skapa rými fyrir listsköpun.

Í dag gefst nemendum í grunnskólum Mosfellsbæjar tækifæri á að stunda tónlistarnám innan veggja skólans að einhverju leyti. Aftur á móti er mikilvægt að grunnskólar komi með auknum hætti að listnámi og geri það aðgengilegra fyrir alla nemendur, óháð samfélagsstöðu.
Sveigjanleiki sem tryggir aðgengi nemenda að grunnstigs tónlistar- eða öðru listnámi á skólatíma gerir okkur fært að samtvinna listir og menningu inn í daglegt líf barna og unglinga. Þannig tryggjum við sömuleiðis að nemendur mæti vel upp lagðir í tíma en ekki þreyttir að loknum hefðbundnum skóladegi eða seint að kvöldi.

Mosfellsbær er bær menningar og lista. Við höfum nú þegar séð að við höfum alla burði til þess að ala upp listafólk á heimsmælikvarða og getum auðveldlega gert enn betur. Við í Vinstri grænum viljum sjá skapandi greinar sem hluta af íslenskri atvinnustefnu og efla listnám.
Í dag er tónlistarnám forréttindi og því vil ég breyta, engum á að neita um þau tækifæri sem felast í listnámi. Það er orðið löngu tímabært að gera listnáminu hærra undir höfði innan almenna skólakerfisins og gefa öllum börnum tækifæri til þess að blómstra.

Una Hildardóttir.
Höfundur skipar 2. sæti á lista VG í Suðvesturkjördæmi.