Við getum verndað Varmá

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir

Þegar ég flutti aftur í Mosfellsbæ með mann, kött og drauma um að fá okkur hund skipti mig miklu máli að finna húsnæði sem væri nálægt náttúrunni. Ekki aðeins svo að göngutúrarnir með hundinn yrðu fjölbreyttir og skemmtilegir, heldur líka vegna þess að náttúra Mosfellsbæjar skiptir mig máli persónulega.

Ég var svo heppin að finna íbúð á æskuslóðunum í Reykjahverfinu, þar sem náttúran er allt um kring. Ég man þannig eftir heilu sumrunum þar sem Varmá var aðal leiksvæði okkar vinanna. Við byrjuðum við dælustöðina og fylgdum ánni í gegnum skóginn við Reykjalund, framhjá Álafossi og enduðum síðan á Stekkjarflöt. Þá var mamma ein af stofnendum Varmársamtakanna, sem börðust fyrir verndun árinnar, þannig að Varmá átti stundum sæti við kvöldmatarborðið heima.
Varmá er perla og það er ekki síst hennar vegna sem mér hefur alltaf þótt Álafosskvosin vera hjarta Mosfellsbæjar. Það er ekki að ástæðulausu sem ferðamannarúturnar stoppa þar þegar þær eiga leið framhjá bænum. Sækjast í gömlu húsin, handverkið og auðvitað Álafossinn sjálfan.

Áhyggjur í áratugi
Þegar ég hugsa um barnæsku mína, nú þegar ég hef eignast mitt fyrsta barn, þykir mér sorglegt hvernig komið er fyrir Varmá. Ástand hennar er jafn slæmt, ef ekki verra, en það var þegar ég var lítil. Reglulega sjáum við myndir frá bæjarbúum af blágrænni slikju í ánni, mengun sem drepur fiska í hundraðatali ár eftir ár. Bakkar Varmár eru víða orðnir svo lélegir að það er ekki hægt að ganga meðfram henni á löngum köflum.

Bæjarbúar hafa bent á það frá því á síðustu öld að allt frárennsli frá göturæsum og bílastæðum fer beint út í ána. En þrátt fyrir óteljandi ábendingar, áskoranir og þrumuræður á bæjarstjórnarfundum frá vinum Varmár þá hefur ekkert verið gert. Áfram er efnum dælt út í ána og áfram fáum við myndir og áhyggjufullar færslur frá bæjarbúum.

Einföld breyting
En það er hægt að breyta til og grípa til aðgerða fyrir Varmá. Það er bara pólítísk ákvörðun eins og svo margt annað. Hvað íbúum kann að finnast skiptir ekki máli ef bæjarstjórn er á öðru máli. En það þarf ekki að vera þannig. Þess vegna erum við Píratar með stefnu í byggðamálum þar sem markmiðið er að auka völd íbúa og auðvelda þeim að hafa áhrif á nærumhverfi sitt. Það má gera mjög auðveldlega, t.d. með því að breyta sveitarstjórnarlögum þannig að lægra hlutfall íbúa þurfi til að kalla til borgarafundar og til að óska eftir íbúakosningu um einstök málefni.

Mér persónulega finnst velferð Varmár vera slíkt málefni. Að fallegri Varmá taki á móti gangandi Mosfellingum og að sex mánaða sonur minn geti leikið sér við heilnæmari Varmá í framtíðinni.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir