Engin formleg dagskrá á vegum Mosfellsbæjar Í túninu heima

Eins og Mosfellingar vita væntanlega flestir verður engin formleg dagskrá á vegum Mosfellsbæjar í „Í túninu heima“, sem er árleg bæjarhátíð Mosfellinga, sem haldin er í ágúst, afmælismánuði bæjarins.
Hátíðin stendur venjulega í fjóra daga og lýkur með útnefningu bæjarlistamanns og afhendingu umhverfisviðurkenninga.
Undirbúningi hátíðarinnar í ár lauk í byrjun sumars en neyðarstjórn Mosfellsbæjar komst að þeirri niðurstöðu að í ljósi samkomutakmarkana verði ekki um formleg hátíðarhöld að ræða á vegum Mosfellsbæjar út um allan bæ eins og hefðbundið er.

Bæjarlistamaður útnefndur á sunnudag
Mosfellsbær hvatti hins vegar til þess í fréttatilkynningu að minni viðburðir sem rúmast innan samkomutakmarkana eigi sér stað dagana 26. til 29. ágúst á ábyrgð þeirra sem halda þá.
Tindahlaup Mosfellsbæjar, sem féll niður í fyrsta sinn í fyrra, verður hins vegar haldið laugardaginn 28. ágúst. Við framkvæmd hlaupsins verður gripið til þeirra ráðstafana sem gefist hafa vel við framkvæmd hlaupa þegar samkomutakmarkanir eru í gildi.
Loks verður bæjarlistamaður Mosfellsbæjar útnefndur og umhverfisviðurkenningar veittar sunnudaginn 29. ágúst.

Íbúar haldi í sínar hefðir
Íbúar Mosfellsbæjar og gestir þeirra eru í ljósi þessarar stöðu hvattir til þess að halda í þær fjölskyldu- og vinahefðir sem hafa skapast í gegnum tíðina.
„Túnið hefur á síðustu árum verið okkur Mosfellingum kær viðburður sem markar sumarlok og upphaf vetrartíðar. Vegna samkomutakmarkana stendur Mosfellsbær ekki fyrir formlegri dagskrá en ég vil hvetja alla íbúa og gesti þeirra að gera sér dagamun, skreyta hús og garða í hverfislitnum, ganga á fell eða um bæinn og eiga góða kvöldstund í sinni sumarkúlu.
Við munum útnefna bæjarlistamann ársins og veita umhverfisviðurkenningar þó með breyttu sniði í lágstemmdri athöfn þar sem fulltrúar umhverfisnefndar og menningar- og nýsköpunarnefndar veita verðlaun og viðurkenningar,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.