Hamingjan hefst hjá þér!
Það er svo ótal margt sem við getum gert til að efla vellíðan okkar og leggja rækt við okkur sjálf.
Það er löngu vísindalega sannað að nægur svefn er grunnurinn að góðri heilsu og vellíðan. Holl og fjölbreytt næring hefur einnig jákvæð áhrif á líkamlega og andlega líðan okkar og hið sama gildir um hreyfingu. Ekki má svo gleyma mikilvægi þess að eiga í góðum og kærleiksríkum samskiptum við aðra.
Kærleiksvikan 11.-17. febrúar
Kærleiksvikan hefur verið við lýði í Mosfellsbæ allt frá árinu 2010 en markmið hennar er að virkja kærleikann innra með okkur, bæði í garð okkar sjálfra sem og annarra. Nemendur grunnskólanna hafa m.a. hengt kærleiksrík skilaboð á innkaupakerrur í Krónunni og Bónus og boðið hefur verið upp á ýmsa viðburði sem sjá má nánar á „Kærleiksvika í Mosfellsbæ“ á Facebook.
Lífshlaupið
Lífshlaupið, heilsu- og hvatningarverkefni ÍSÍ, hefst 6. febrúar nk. og hvetjum við fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga í Mosfellsbæ eindregið til virkrar þátttöku. Mörg lið hafa að sjálfsögðu skráð sig til leiks nú þegar og má þar m.a. nefna bæjarskrifstofuna, Varmárskóla, Lágafellsskóla og FMOS. Í Lífshlaupinu eru landsmenn hvattir til að huga að daglegri hreyfingu sinni og hvernig megi auka hana. Getum við t.d. gengið/hjólað á milli staða í stað þess að nýta bílinn? Getum við gengið stigann í staðinn fyrir að nota lyftuna? Höldum við á börnunum okkar eða leyfum við þeim að ganga/hlaupa?
Meistaramánuður Íslandsbanka
Það er alltaf gott að setja sér markmið í lífinu og þau geta verið alls konar. Veldu þér markmið sem skipta þig máli og hafðu þau SMART. Það þýðir skýr (stutt og laggóð), mælanleg (augljóst hvenær og hvernig árangri er náð), aðlögunarhæf (sveigjanleg), raunhæf (sem þú veist þú getur náð) og tímabundin (settu tímamörk). Gott er að skrifa markmiðin niður, taka eitt skref í einu og gefast ekki upp. Markmiðin geta snúist um samverustundir fjölskyldunnar, að lesa loks bókina sem maður ætlaði alltaf að lesa, leika sér meira úti o.s.frv. Mitt helsta markmið í meistaramánuði er t.d. að fara fyrr að sofa og ná að lágmarki 7 klst. svefni á nóttu.
Það er klárlega ýmislegt skemmtilegt fram undan og fjölmörg tækifæri til að hlúa vel að sjálfum sér. Titill pistilsins er sóttur í einkunnarorð Kærleiksvikunnar í Mosfellsbæ sem eiga alltaf við og því tilvalið að enda á þeim líka því – „Hamingjan hefst hjá þér“!
Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ