Halla Karen Mosfellingur ársins 2022
Mosfellingur ársins 2022 er Halla Karen Kristjánsdóttir íþróttafræðingur og formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar.
Halla Karen hefur verið óþreytandi við að hvetja bæjarbúa til hreyfingar og heilbrigðari lífsstíls í áratugi. Hún hefur m.a. starfrækt íþróttaskóla barnanna, kennt leikfimi í World Class og Í toppformi, haldið úti hlaupahópnum Mosóskokki, séð um Kvennahlaupið, unnið sem íþróttakennari í Borgarholtsskóla í 25 ár og hefur gert frábæra hluti varðandi hreyfingu eldri Mosfellinga síðustu ár.
Sögulegur sigur Framsóknar í vor
Halla Karen tók við sem formaður Framsóknarfélags Mosfellsbæjar í ágúst 2021 og í framhaldinu varð hún oddviti flokksins í febrúar 2022. Flokkurinn hafði ekki átt fulltrúa í bæjarstjórn Mosfellsbæjar í 12 ár en vann stórsigur í kosningunum vorið 2022 og fékk fjóra bæjarfulltrúa kjörna.
Fylgið rúmlega tífaldaðist þegar það fór úr 2,9% í 32,2% og í fyrsta skipti í rúma hálfa öld var annar flokkur en Sjálfstæðisflokkurinn orðinn stærstur í Mosfellsbæ. Framsókn myndaði nýjan meirihluta með Samfylkingunni og Viðreisn og réð nýjan bæjarstjóra. Halla Karen sjálf tók við sem formaður bæjarráðs.
Missti föður sinn eftir kosningarnar
„Þetta er búið að vera viðburðaríkt ár,“ segir Halla Karen. „Þetta er stór viðurkenning sem mér þykir óskaplega vænt um og kemur mér skemmtilega á óvart. Þótt margt hafi gengið vel hingað til þá er þetta mikil breyting á mínu daglega lífi sem hefur allt sína kosti og galla. Ég ætla bara að vera alveg hreinskilin með það.
Þetta var mjög erfitt ár fyrir mig líka en ég missti minn helsta stuðningsmann, föður minn og vin, tveimur vikum eftir þennan stóra sigur okkar. Það má segja að þessir mánuðir hafi verið mjög lærdómsríkir og einkennst á sama tíma af gleði og sorg.
Halla Karen hefur áður tekið þátt í pólitík á lífsleiðinni og oft hefur verið reynt að fá hana til þess aftur. „Mér hefur bara ekki fundist rétti tímapunkturinn, fyrr en kannski núna. Ég er komin á miðjan aldur og reynslunni ríkari, dætur okkar Ella orðnar stórar þannig að ég hugsaði með mér, af hverju ekki að slá til og prufa og hafa áhrif á samfélagið okkar? Við tók einstaklega krefjandi og spennandi kosningabarátta.
Við vorum með vel samsettan hóp í Framsókn og það var eitthvað í loftinu sem small svo allt að lokum. Við vorum á réttum tíma á réttum stað og ég vil taka það fram að ég er alls ekki ein í þessu. Við erum kröftugur, góður og fjölbreyttur hópur og saman erum við sterk. Allt fólk sem hefur látið gott af sér leiða til samfélagsins á einn eða annan hátt.“
Þakklát fyrir að hafa ráðið bæjarstjóra
Var aldrei ákall um að þú settist sjálf í bæjarstjórastólinn eftir sigurinn?
„Við vorum búin að gefa það út að við ætluðum að ráða bæjarstjóra en auðvitað geta forsendur alltaf breyst. Það hefði líka alveg eins getað verið einhver annar af listanum. Í dag er ég mjög þakklát að við fórum þessa leið, að ráða í stöðuna.“ Regína Ásvaldsdóttir tók við sem bæjarstjóri í byrjun september. „Hún er einmitt það sem okkur vantaði á þessum tímapunkti, öflug, klár, mannleg og kröftugur reynslubolti.“
Nýr meirihluti hefur nú starfað í rúmt hálft ár og Halla Karen segist finna að ábyrgðin sé mikil. „Ég er að stíga vel út fyrir þægindarammann, margt er skemmtilegt og annað er örlítið minna skemmtilegt.
Ég vil standa við þá ábyrgð sem mér var falin og því upplifi ég oft að ég sé alltaf í vinnunni en auðvitað þarf ég að finna jafnvægi í þessu öllu. Eigum við ekki að segja að það sé áramótaheitið mitt. Tíminn og reynslan í þessu starfi mun væntanlega hjálpa mér að skipuleggja tímann minn betur.“
Vilja öll gera bæinn betri
„Ég veit ekki hvort ég sé einhver brjálaður pólitíkus en ég hef mikinn áhuga á fólki og mig langar að hafa áhrif á hvernig samfélagi við búum í. Bæjarbragurinn þarf að vera góður og tækifærin eru mörg.
Með nýjum meirihluta koma auðvitað breyttar áherslur en mín draumsýn er í raun sú að við bæjarstjórnin gætum unnið enn meira saman, af því að ég veit að við höfum sama markmiðið, að gera bæinn okkar betri. Það væri þá hægt að sleppa því að eyða púðri í það sem minna máli skiptir.“
Í dag er Halla Karen í leyfi frá kennslunni í Borgarholtsskóla, sem var löngu ákveðið, en kemur sér nú vel við að aðlagast nýjum veruleika í pólitíkinni. Þá er hún einnig í háskólanum í ýmsum heilsutengdum kúrsum en segist ekki vera allra duglegasti námsmaðurinn þar, í augnablikinu.