Hafa gróðursett 1,4 milljónir plantna

Fréttabréf Skógræktarfélags Mosfellsbæjar kom út á síðum Mosfellings.

Fréttabréf Skógræktarfélags Mosfellsbæjar kom út á síðum Mosfellings. 30. tbl. – apríl 2017

Fréttabréf Skógræktarfélagsins kom út á síðum Mosfellings þann 6. apríl. Aðalfundur félagsins verður haldinn í húsi Björgunarsveitarinnar Kyndils, Völuteigi 23, Mosfellsbæ, mánudaginn 10. apríl kl. 20.00. Fyrir utan hefðbundin aðalfundastörf mun Bjarni diðrik Sigurðsson flytja erindið Vatnið og skógurinn. Þar ræðir hann um eitt mikilvægasta umhverfismál samtímans sem eru vatnsmálin og fjallar um mikilvægi skógarins í því samhengi.

Skógræktarfélag Mosfellssveitar síðar Mosfellsbæjar var stofnað 20. maí 1955. Stofnfélagar voru 88 og þrjú félagasamtök gerðust meðlimir: Ungmennafélagið Afturelding, Kvenfélag Lágafellssóknar og Skógræktarfélag kvenskáta við Hafravatn.
Fyrsti formaður félagsins var Guðjón Hjartarson á Álafossi. Fyrst var félagið hluti af Skógræktarfélagi Kjósarsýslu en varð síðan sjálfstætt félag til þess að geta átt beina aðild að Skógræktarfélagi Íslands. Núverandi formaður er Kristín Davíðsdóttir.

Skógar félagsins
Frá stofnun félagsins hafa verið gróðursettar um 1,4 milljónir plantna. Fyrsta plöntun félagsins var kringum Hlégarð vorið 1956. Fljótlega fékk félagið reit í Hamrahlíðinni.
Árið 1990 hófst hið svokallaða Landgræðsluátak en þá fóru skógræktarfélögin að fá plöntur án endurgjalds, en við það jókst útplöntun félagsins til muna. Gerðir voru samningar bæði við bæjarfélagið og einkaaðila um land til skógræktar. Síðan þá er búið að klæða mörg fellin og myndar það hluta af hinum Græna trefli sem umlykja á allt höfuðborgarsvæðið.
Í dag er ekki lögð eins mikil áhersla á að gróðursetja nýskóg heldur hefur þörfin á umhirðu skógarins aukist eftir því sem skógarnir hafa vaxið og dafnað. Mikil þörf er á grisjun skóganna og gerð göngustíga til að hægt sé að nota þá til útivistar.
Svæði sem félagið hefur plantað í eru: Hamrahlíð, Þormóðsdalur, Úlfarsfell, Lágafell, Reykjahvolshlíð, Helgafell að norðan, Norður Reykir, Æsustaðhlíð, Varmaland, Háaleiti og Langihryggur.
Ár hvert er haldinn fræðslufundur í samráði við Mosfellsbæ, en hann hefur verið í byrjun maí. Í byrjun júní er vinnukvöld félagsins. Árleg skógarganga er um miðjan júní. Hægt er að fylgjast með á síðu félagsins www.skogmos.net.

Hér fyrir neðan má sjá fréttabréfið í heild sinni.