Bæði karla- og kvennalið Aftureldingar í úrslitum

Kjörísbikarinn fer fram í Laugardalshöll um helgina.

Kjörísbikarinn fer fram í Laugardalshöll um helgina.

Sannkölluð bikarhelgi er framundan í blakinu en bæði úrvalsdeildarlið Aftureldingar í blaki munu leika í undanúrslitum á föstudaginn 7. apríl. Stelpurnar eiga titil að verja en þetta er í fyrsta skipti sem strákarnir komast í Laugardalshöllina.
Stelpurnar leika gegn Þrótti Nes. kl. 14 á föstudag og Strákarnir spila gegn Vestra Ísafirði kl. 20.
Markmið beggja liða er að leika til úrslita en úrslitaleikirnir fara fram á sunnudeginum í Laugardalshöll. Það er því mikilvæg helgi framundan hjá blakdeildinni og því er stuðningur Mosfellinga og Aftureldingarfólks gífurlega mikilvægur. Miðasala á úrslitahelgina er í fullum gangi og hægt er að nálgast miða í afgreiðslunni í íþróttamiðstöðinni að Varmá.
Úrslitaleikirnir á sunnudaginn í Laugardalshöllinni hefjast með úrslitaleik karla kl. 14:00 og konurnar leika síðan kl. 16:00.

Íslandsmeistaratitill kvenna í húfi
Úrvalsdeildarlið kvenna er búið að tryggja sér réttinn til að leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn eftir öruggan sigur á Þrótti Neskaupsstað í tveimur leikjum. Fyrri leikurinn sem var leikinn að Varmá vannst örugglega 3-0 og seinni leikinn í Neskaupsstað unnu stelpurnar 3-1.
Úrslitakeppnin hefst þann 19. apríl og leika stelpurnar við HK, en þessi lið hafa verið í sérflokki í deildinni í vetur. Fyrsti leikurinn fer fram í Fagralundi en fyrsti heimaleikur Aftureldingar er 21. apríl. Vinna þarf þrjá leiki til að landa titlinum og alveg ljóst að úrslitarimman verður jöfn og spennandi eins og leikirnir í vetur.