Styttist í að íþróttamiðstöð GM verði tekin í notkun

golfGM

Kári Tryggvason formaður GM.

Kári Tryggvason formaður GM.

Miðsvæðis á Hlíðavelli er nú verið að leggja lokahönd á glæsilega íþróttamiðstöð Golfklúbbs Mosfellsbæjar.
Fyrir ári síðan, þann 1. apríl 2016, tóku ungir kylfingar fyrstu skóflustunguna og í dag er uppbygging á húsinu á lokasprettinum.
Á Hlíðavelli hefur átt sér stað mikil uppbygging á 18 holu golfvelli frá árinu 2004.
„Það eru miklir uppgangstímar hjá okkur og nýtt hús mun gjörbylta allri aðstöðu golfklúbbsins,“ segir Kári Tryggvason nýr formaður GM. Klúbburinn telur um 1.000 manns í dag og fer ört fjölgandi.

Veitingasala og veislusalur
Íþróttamiðstöðin verður 1.200 fm á tveimur hæðum og mun hýsa alla skrifstofu-, félags- og æfingaaðstöðu klúbbsins til framtíðar. Þá verður tekinn í notkun salur á efri hæð hússins sem rúma mun 120-200 manns. Þar verður rekin veitingasala og veislusalur leigður út.
„Hér eiga allir Mosfellingar eftir að njóta góðs af góðri aðstöðu og geta mætt hér í kaffi eða mat. Útsýnið héðan er frábært og fellur húsið vel inn í landslagið. Stefnt verður að því að svæðið verði tengt inn á stígakerfi Mosfellsbæjar og munu þar skapast mörg tækifæri fyrir tengingar við fleiri íþróttir og útvist í hjarta Mosfellsbæjar.“

Æfingaaðstaða fyrir börn og unglinga
„Stefnt er að því að fyrsta áfanga verksins ljúki nú í næsta mánuði með opnun efri hæðarinnar. Neðri hæðin með búnings- og æfingaaðstöðu verður svo vonandi tekin í notkun fyrir veturinn.
Á sumrin stunda um 200 börn golf og hefur vantað verulega upp á aðstöðu til æfinga yfir vetrartímann. Þetta verður því kærkomið fyrir okkar ungu og efnilegu kylfinga. Þá gefst möguleiki á því að gera golf að heilsársíþrótt í Mosfellsbæ við bestu mögulegar aðstæður.“

Ómetanlegir sjálfboðaliðar
„Hér erum við full eftirvæntingar og sjálfboðaliðar hafa unnið hörðum höndum á síðustu mánuðum undir eftirliti verktaka hússins. Allt gengur samkvæmt áætlun og tilhlökkunin er mikil.
Félagsandinn er mjög góður og án þessara öflugu sjálfboðaliða sem lagt hafa á sig hundruð vinnustunda væri þetta einfaldalega ekki hægt,“ segir Kári að lokum.
Gamli golfskálinn neðan við Súluhöfða mun víkja ásamt æfingasvæðinu og þar mun rísa íbúðagata.