Hættir sem bæjarstjóri í vor

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í Mosfellsbæ hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu í bæjarstjórn við bæjarstjórnarkosningarnar sem haldnar verða í maí á næsta ári.  Þetta tilkynnti Haraldur á fjölmennum fundi fulltrúaráðs Sjálfstæðsfélaganna í Mosfellsbæ í gærkvöldi.  Haraldur er oddviti Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ og hefur verið bæjarstjóri frá árinu 2007, setið í bæjarstjórn frá árinu 2002 og var varabæjarfulltrúi á árunum 1998 til 2002. 

„Ég var svona búinn að hugsa það með sjálfum mér fyrir fjórum árum að þetta yrði mitt síðasta kjörtímabil í bæjarstjórn Mosfellsbæjar en umfram allt hefur þetta verið afskaplega skemmtilegur og gefandi tími,“  segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. „Ég hef verið bæjarstjóri frá árinu 2007 sem er lengst allra sem gengt hafa þessu embætti í Mosfellsbæ.  Á þessum tíma hefur íbúum fjölgað um helming og þó ég segi sjálfur frá hefur alveg ótrúleg uppbygging átt sér stað hér á umliðinum árum. Mest um vert er að bæjarbúar eru stoltir af sínu sveitarfélagi, þeir standa vörð um samfélagið og sú þjónusta sem við veitum er í fremstu röð samkvæmt mælingum. Ekkert af þessu gerist fyrir tilviljun og ég vil þakka það góðri samvinnu innan meirihluta bæjarstjórnar og einnig okkar frábæra starfsfólki. Ég vil því nota þessi persónulegu tímamót til að þakka samstarfsfólki mínu, kjörnum fulltrúum, starfsfólki Mosfellsbæjar og öðrum fyrir farsælt samstarf.  Síðast en ekki  síst vil ég þakka íbúum Mosfellsbæjar fyrir að fá að vinna með þessu góða samfélagi í öll þessi ár, það hefur gefið mér mikið. En ég mun gegna starfi bæjarstjóra af trúmennsku þar til í vor þegar kjörtímabilinu lýkur“