Geta allir búið í Mosfellsbæ?
Eitt af verkefnunum fram undan er að takast á við húsnæðisvanda tekjulægri hópa í Mosfellsbæ.
Á undanförnum árum hefur íbúðaverð og leiga hækkað langt umfram launahækkanir og neyðarástand skapast sem bitnar hvað harðast á þeim sem hafa minnstar og lágar meðaltekjur.
Sveitarfélög eru í lykilstöðu til að hafa áhrif til lækkunar á húsnæðisverði. Þau hafa skipulagsvaldið og ber lagaleg skylda til að sjá þeim efnaminnstu fyrir húsnæði. Undir stjórn D- og V-lista hefur Mosfellsbær sýnt litla fyrirhyggju þegar kemur að því að ráða bót á þessum vanda og beita sér fyrir lækkun íbúða- og leiguverðs.
Félagslegt húsnæði í lágmarki
Samkvæmt könnun Velferðarráðuneytisins frá árinu 2016 er framboð á félagslegu húsnæði misjafnt eftir sveitarfélögum. Samt er það verkefni lögbundið. Mosfellsbær kom illa út úr könnuninni og er framboðið hér með því lægsta sem gerist. Orsökin er sú að meirihluti D- og V-lista hefur fylgt þeirri stefnu að byggja hvorki né kaupa íbúðir.
Frá árinu 2002 hefur Mosfellsbær keypt eina félagslega íbúð til viðbótar við þær þrjátíu sem fyrir voru. Viðkvæðið hefur verið að taka frekar íbúðir á leigu með tilliti til fjölskyldustærðar. Sú stefna heldur þó ekki vatni í sveitarfélagi þar sem framboð á leiguhúsnæði hefur nánast ekki verið neitt þar til nú. Í dag er leigumarkaðurinn að glæðast og nýlega tók Mosfellsbær á leigu þrjár félagslegar íbúðir til viðbótar. Reyndar leysir það ekki málið því leiguverð stóru leigufélaganna er himinhátt og þau misjafnlega viljug til að leigja sveitarfélögum íbúðir í félagslegum tilgangi. Eina úrræðið er því að kaupa húsnæði eða setja kvaðir í skipulag um að byggjendur fjölbýlishúsa geri ráð fyrir svo og svo mörgum íbúðum fyrir tekjulægri hópa.
Unga fólkið og tekjulægstu 25%-in
Á Norðurlöndum er almennt miðað við að íbúar greiði ekki meira en 25% af launum sínum eftir skatta í húsnæðiskostnað. Á Íslandi er þetta hlutfall 50% samkvæmt upplýsingum Íbúðalánasjóðs. Margir búa því við lítið húsnæðisöryggi og eiga í erfiðleikum með að standa í skilum. Í þessum hópi er mest af ungu fólki, eftirlaunaþegum og námsmönnum.
Sveitarfélög hafa ýmsar leiðir til að hafa áhrif á verðþróun á húsnæðismarkaði. Mosfellsbær á reyndar ekki mikið af skipulögðu landi innan byggðarmarka en með örlítið meiri fyrirhyggju í kjölfar hrunsins hefði verið hægt að hafa áhrif þegar stór hluti byggingarlands varð eign bankastofnana. Það er umhugsunarefni af hverju Mosfellsbær nýtti ekki þetta tækifæri. Helgafellsland, Leirvogstunga, Lágafellsland og Blikastaðaland voru og eru að stórum hluta í eigu skilanefnda, banka og sparisjóða.
En hvað hefði sveitarfélagið getað gert?
Í fyrsta lagi að semja um kaup á landi og gera heildarendurskoðun á fyrirliggjandi skipulagi. Í kjölfarið setja kvaðir í skipulag. Í öðru lagi semja við byggingar- og leigufélög sem ekki eru hagnaðardrifin. Samkvæmt lögum um almennar íbúðir frá 2016 hafa Íbúðalánasjóður og sveitarfélögin heimild til að niðurgreiða húsnæði fyrir tekjulægri hópa um samtals 30% með svokölluðu stofnframlagi til byggingaraðila.
Nú er lag Mosfellingur góður til að rjúfa kyrrstöðu í húsnæðismálum ungs fólks og tekjulægri hópa. Með því að setja X við Í á kjördag kjósið þið stjórnmálaafl sem starfar af festu og heiðarleika fyrir alla.
Sigrún H. Pálsdóttir er oddviti
á Í-lista íbúahreyfingar og Pírata.