Gefa út bók um hersetuna í Mosfellssveit og á Kjalarnesi

Bandarískir hermenn gera við hitaveitulögn Helgafellsspítala við rætur Helgafells. Lögnin stóð á stöplum og var einangruð með sér­sniðn­um vikursteini sem bundinn var með vírneti.

Út er komin, á vegum Sögufélags Kjalarnesþings, bókin Hersetan í Mosfellssveit og á Kjalarnesi 1940-1944 eftir Friðþór Eydal.
Friðþór hefur ritað fleiri bækur um hernámsárin á Íslandi og þekkir mjög vel til aðbúnaðar hermanna á þessum tíma.
Mosfellssveit og Kjalarnes voru vettvangur mikilla umsvifa erlends herliðs á árum síðari heimsstyrjaldar. Herlið hafði með höndum strandvarnir og skyldi reiðubúið til sóknar gegn óvinaliði sem freistaði landgöngu á Vestur- eða Suðurlandi.
Víða um svæðið voru reistar búðir með fjölda bogaskála sem á ensku nefndust „barracks“ en landsmenn kölluðu bragga. Fáeinir braggar eru enn í notkun í Mosfellssveit og víða í sveitinni má sjá minjar um hersetuna.
Í bókinni er litið inn í vistarverur hermanna og aðbúnaði þeirra lýst; enn fremur eru verkstæði, spítalar og birgðageymslur skoðaðar. Einnig er komið inn á samskipti Íslendinga og hermanna. Í bókinni er dregin upp skýr mynd af umsvifum hersetunnar þegar um 10.000 hermenn höfðu aðsetur í Mosfellssveit.
Bókina prýða liðlega 170 ljósmyndir og nákvæm kort af herskálasvæðum. Margar ljósmyndanna hafa aldrei komið fyrir almenningssjónir.
Bókin varpar skýru ljósi á byggðir hermanna og skipulag varna landsins á þessum tíma. Bygging herskála hafði nokkur áhrif á skipulag Mosfellssveitar, ekki síst á Reykjalundarsvæðinu.
Bókin verður til sölu í Bónus og í Héraðsskjalasafninu.