HM og öflug liðsheild?

Þegar þetta er skrifað er ljóst að Argentína, Holland, England og Frakkland eru komin í 8-liða úrslit á HM. Ég er mikið að vinna í liðsheildarverkefnum þessa dagana, með vinnustöðum sem vilja efla fólkið sitt og fá það til að vinna enn betur saman undir stjórn hvetjandi leiðtoga.

HM kemur á allra besta tíma fyrir mig. Hver dagur á HM er krydd í liðsheildarvinnuna. Belgarnir eru eitt dæmi, rifrildi milli leikmanna í fjölmiðlum er ekki lýsandi fyrir öfluga liðsheild, enda eru þeir farnir heim með skottið milli lappanna, blessaðir. Portúgalir eiga möguleika á að komast í 8-liða úrslit með sigri á Sviss. Þeir eru taldir talsvert líklegri til sigurs, en leynivopn Sviss er hinn stórkostlegi portúgalski íþróttamaður Ronaldo – sem fyrir utan að vera mikill íþróttamaður er lítill liðsheildarmaður sem hugsar fyrst um sig og síðan um liðið. Og það á eftir að koma liði hans um koll, hvort sem það verður á móti Sviss eða í 8-liða úrslitunum. Mbappe, hins vegar, annar frábær íþróttamaður, virðist vera að njóta sín í botn með sterkri liðsheild Frakkana. Hann er einn af liðinu og spilar fyrir það, ekki sjálfan sig.

Vinnustaðir geta lært mikið af öflugum íþróttaliðum þegar kemur að því að byggja upp og viðhalda öflugri liðsheild. Íþróttalið geta sömuleiðis lært af góðum vinnustöðum þau gildi og aðferðir sem gefast best í daglegum samskiptum og samvinnu. Traust er alltaf lykilatriði. Grunnurinn sem allt annað byggir á. Ef ekki ríkir traust, er ómögulegt að byggja upp sterkt teymi og ná árangri saman. Og meira en það, skortur á trausti leiðir til vanlíðunar og óöryggis. Okkur líður best og gengur best í umhverfi þar sem allir treysta öllum. Þetta gildir um öll teymi. P.s. þakkir til þín góða kona á bílaplaninu fyrir utan JAKO á Krókhálsinum. Orðin þín hlýjuðu og eru mér hvatning.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 8. desember 2022