Förum varlega um hátíðarnar

Valdimar Leó Friðriksson

Valdimar Leó Friðriksson

Nú þegar hátíð ljóssins er gengin í garð er nauðsynlegt að fara varlega með kertaljós og skreytingar. Óaðgætni við matseld er mjög algeng orsök elds, auk þess ýmiss konar rafmagnstæki. Bitur reynsla margra sýnir að ekki er skynsamlegt að hafa þvottavélar, þurrkara og uppþvottavélar í gangi ef enginn er heima til að bregðast við, ef eldur kemur upp.

Spjaldtölvur og tæki sem algeng eru í svefnherbergjum á ekki að hafa í sambandi nema í öruggu, tregbrennanlegu umhverfi. Til dæmis alls ekki uppi í rúmi eins og dæmi eru um að gert hafi verið með afar slæmum afleiðingum.
Eldsvoði á heimili er skelfileg lífsreynsla sem enginn vill upplifa. Gerum því það sem í okkar valdi stendur til að draga úr hættu á að eldur komi upp og tryggjum að á heimilinu sé réttur búnaður. Nauðsynlegt er að hafa tvo eða fleiri reykskynjara, eldvarna­teppi og handslökkvitæki.
Og munum að fyrstu viðbrögð við eldsvoða eru alltaf að koma öllum heilum út og gera slökkviliði viðvart í gegnum neyðarnúmerið 112.

Gleðilega hátíð.

Valdimar Leó Friðriksson framkvæmdastjóri
Landssambands Slökkviliðs- og Sjúkraflutningamanna

Greinin birtist í Mosfellingi 17. desember 2015