Pistill frá formanni félags aldraðra í Mosfellsbæ og nágrenni

Harald S. Holsvik

Harald S. Holsvik

Kæru FaMos-félagar og aðrir Mosfellingar, nú líður senn að jólum og við leitumst við að undirbúa hátíðirnar hvert og eitt á okkar venjubundna hátt en eftir því sem aðstæður leyfa. Í huga okkar flestra eru jólin allra helgasta hátíð ársins. Við hlökkum til jólanna og þess boðskapar sem fylgir. Við viljum finna hið góða innra með okkur og leitum að kærleika, friði og ró.

Félagsstarfið á vegum FaMos hefur að mínu áliti verið blómlegt og framar björtustu vonum. Ég vil með þessum fátæklegu orðum mínum þakka innilega þau óeigingjörnu störf sem setja svip sinn á félagsstarfið. Við erum rík og skortir ekki velvilja þeirra ágætu félaga okkar sem leggja sig alla fram við að stjórna og stýra ýmsum vinnunefndum og hópum á vegum félagsins sem gefa félaginu okkar svo ríkulegt gildi. Samskipti og samvera ásamt baráttu gegn einsemd eru þau einkunnarorð og málefni sem styðja þarf við, þegar starfslok eru að nálgast og orðin staðreynd.

Félagafjöldinn um síðustu áramót var um 400. En samkvæmt bestu vitund gætu allt að 1200-1300 menn og konur í Mosfellsbæ og nágrenni, átt aðild. Eftir áramótin má búast við tölvunámskeiðum til viðbótar, ef næg þátttaka fæst, svo dæmi sé tekið.
Inngönguskilyrði eru aðeins þau að vera 60 ára að aldri og eldri. Árgjald til félagsins er aðeins 2.500 kr. Kennitala félagsins er: 471102-2450 og Arion banki nr. 0315 -13-700127.
Tímabilið frá 60 ára til 65 ára, þegar sumir fá í hendur starfslokasamning, er fljótt að líða og einnig næstu tvö árin að 67 ára mörkunum, þegar enn fleiri axla pokann sinn og hverfa frá sínum fyrri störfum. Ef fólk vinnur hjá hinu opinbera eða sveitarfélögum, þá rennur lokastundin því miður upp við 70 ára aldursmörkin.

Að síðustu langar mig að geta þess að Öldungaráð Mosfellsbæjar hefur tekið til starfa og vonir eru bundnar við að það taki á málefnum aldraðra. Það er verulegur skortur á hjúkrunarrýmum í sveitarfélaginu og áætlun um þau málefni liggur ekki fyrir. Það eru okkur mikil vonbrigði að vita til þess að Framkvæmdasjóður aldraðra sem landsmenn greiða í er nú nýttur til að greiða niður rekstrarskuldir hjúkrunarheimila í stað þess að byggja ný.
Mig hefur lengi dreymt um að í framtíðinni getum við gert svipað og til sjós. Við þurfum að skipta þeim afla réttlátlega sem í bátinn er kominn. Hvers vegna þurfa þessar hámenntuðu stéttir að miða laun sín við samninga og greiðslur sem milljónaþjóðir geta greitt? Hvers vegna má ekki finna réttlát hlutföll um laun og réttlát hlutföll úr ríkissjóði gagnvart fjárfestingaráformum. Hvernig þjóðfélag viljum við?

Það leita á mann svona spurningar sem erfitt virðist að svara. En nú eru að koma jól. Hugsum um frið og kyrrð í tilefni jólanna.

Ég veit ekki hvort þú hefur,
huga þinn við það fest,
að fegursta gjöf sem þú gefur,
er gjöfin sem ekki sést.

Ástúð í andartaki,
augað sem glaðlega hlær,
hlýja í handartaki,
hjarta sem örara slær.

Úlfur Ragnarsson

Gleðileg jól og gæfuríkt komandi ár.
Harald S. Holsvik

Greinin birtist í Mosfellingi 17. desember 2015